Minning: Karl Sigurbjörnsson

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024). Mynd: Kirkjublaðið.is

Í ársbyrjun 1941 var síra Sigurbjörn Einarsson, faðir Karls, kjörinn prestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík.  Hann og eiginkona hans, frú Magnea Þorkelsdóttir, settust að, ásamt fjórum börnum sínum, í húsinu nr. 17 við Freyjugötu, því er næst stendur frá róluvellinum í vestur.  Foreldrar síra Sigurbjarnar voru hjónin Einar Sigurfinnsson og Gíslrún Sigurbergsdóttir á Efri-Steinsmýri í Meðallandi.  Frú Magnea var dóttir hjónanna Rannveigar Magnúsdóttur og Þorkels Magnússonar í Reykjavík.  Í móðurætt var hún afkomandi þess góðfræga síra Jóns eldklerks Steingrímssonar á Prestsbakka á Síðu.

               Vigdís Ketilsdóttir, húsfreyja á Grettisgötu 26, unni vel prestakallinu og var eindreginn stuðningsmaður síra Sigurbjarnar.  Vigdís var dóttir Ketils hreppstjóra og dannebrogsmanns í Kotvogi í Höfnum Ketilssonar, þess er reisti Hvalsneskirkju fyrir eigin reikning. Voru vináttubönd milli heimila Vigdísar og prestshjónanna ungu.  Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður, sonur Vigdísar, sá er flutti inn Bernína-saumavélarnar og Prinspóló-kexið, fór á kjörstað við prestskosningarnar og heyrðist hljóða innan úr kjörklefanum:  “Hvað heitir hann aftur, þessi, sem hún mamma sagði að ég ætti að kjósa!”

               Eftir að síra Sigurbjörn varð prófessor við Guðfræðideild Háskólans fór hann fótgangandi vestur eftir.  Persóna snillingsins hafði aðdráttarafl og vakti athygli á götu.  Einhver sagði, að í hvert sinn sem prófessor Sigurbjörn gengi yfir Tjarnarbrúna hugleiddi að minnsta kosti einn skólapiltur í Reykjavík að læra til prests.

 Uppeldi barna lét frú Magneu einstaklega vel.  Hún var kvenna stilltust og þó næsta kímin bak við.  Þorkell tónskáld Sigurbjörnsson hafði snemma á sér snið listamannsins.   Kvað frú Magnea  grannana taka svo til orða um þá feðga:  “Kyndugur er karlinn og ekki er strákurinn betri.”

               Valmennið Karl Sigurbjörnsson var alla ævi trúr því heiti, sem hann vann á vígsludegi, “að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evangelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar.”  Honum sveið, að prestar skyldu einatt prédika Krist án þess að holdtekjan, líf hans og dauði, friðþægingin á krossinum og upprisan væru talin hafa sérstaka þýðingu.  Þar væru tvær meginstefnur.  Dóketismi með höfuðáherslu á kenningu Jesú þar sem saman færi áhugaleysi á jarðnesku lífi Krists og  tröllatrú á andlegum möguleikum mannsins. Og svo ebjónítismi, þar sem athyglin beindist einkum að persónu lausnarans.  Hér væri prédikað, að guðsvitund Jesú hefði verið svo sterk, að hann frelsaði mennina með því að hafa á þá sálræn áhrif.

               Í stað þessa vildi Karl biskup boða friðþægingarkenninguna; þá latnesku, þar sem það er Guð og lögmál hans, sem er andlag verks Krists til hjálpræðis; þá subjektívu, þar sem vandinn er skortur mannsins á trú og ást á Guði,  sem síðan er vakið með því að virða fyrir sér gefandi kærleika Jesú; og þá klassísku, þar sem afrek Jesú er stríð móti djöflinum og sigur yfir valdi hans.

               Guð blessi minningu drengsins góða, Karls Sigurbjörnssonar.  Guð huggi, verndi og styrki ástvini hans alla.

                                                                          Gunnar Björnsson,

                                                                          pastor emeritus.

DEILA