Ísafjarðarbær: gjaldskrárlækkun ekki fyrr en 1. ágúst n.k.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrir liggur eftir umræður á bæjarráðsfundi í Ísafjarðarbæ að lækkun gjaldskrár í leikskólum í kjölfar kjarasamninga verður ekki fyrr en 1. ágúst næstkomandi. Gjaldskráin hækkaði um 6% um áramótin en í kjarasamningnum var samið um að gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga yrðu endurskoðaðar og hækkunin á árinu 2024 yrði ekki meiri en 3,5%.

Í minnisblaði Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra sem hún lagði fyrir bæjarráð leggur hún til að gjaldskráin fyrir leikskóla lækki ekki fyrr en 1. ágúst þannig að hækkun ársins verði einungis 3,5%. Bæjarráðið minnti á að starfshópur um málefni leikskóla sé að störfum og muni skila af sér tillögum um gjaldskrár leikskóla fyrir sumarfrí og telur bæjarráð farsælast að bíða eftir þeim tillögum.

Þá leggur bæjarstjóri til að dægradvöl taki ekki hækkunum eða hámarkshækkunum, þ.e. 3,5% frá 1. ágúst 2024, fyrir veturinn 2024/2025. Taka þurfi afstöðu til gjalds vegna hressingar í dægradvöl, 150 kr. pr. dag.

Bæjarráð ákvað að skólamáltíðir grunnskóla verði fríar frá 1. ágúst 2024, í samræmi við samkomulag ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Gjaldskrá á sundstöðum og skíðasvæði hækkaði almennt um 6% um áramótin og leggur bæjarstjóri til að gjaldskrár skíðasvæða verði breytt á eftirfarandi hátt:
a. endurgjaldslaust verði fyrir börn að 18 ára aldri. (núgildandi gjaldskrá er frítt fyrir börn 5 ára og yngri, og 50% afsláttur fyrir börn 6-18 ára). Ath. frítt er í sund fyrir öll börn 18 ára og yngri.
b. 50% afsláttur er veittur af búnaðarleigu til barna undir 18 ára aldri.

Tillagan var ekki afgreidd og fól bæjarráð bæjarstjóra að vinna áfram að tillögunum.

DEILA