Skrá verður stöðu kílómetramælis annars er sektað

Kílómetragjald á rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla tekur gildi 1. janúar og fyrsti gjalddagi er 1. febrúar næstkomandi. Fjármála- og efnahagsráðherra lagði frumvarpið fram í nóvember og var það samþykkt á Alþingi fyrir jólafrí. Þetta kemur fram á heimasíðu skattsins ásamt öðum upplýsingum þessu máli tengdu.

Skattlagningin felur í sér að bifreiðaeigendurnir greiða 6 krónur á hvern kílómetra fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla. Greiða ber 2 krónur á hvern kílómetra fyrir tengiltvinnbíla. Greitt er mánaðarlega. Eigandi bifreiðarinnar er greiðandi nema þegar um eigna- eða fjármögnunarleigu er að ræða eins og í tilfelli rekstrarleigubíla. Þá er umráðamaður greiðandi gjaldsins. Upphæð kílómetragjalds miðast við meðalakstur bílsins en meðalakstur er reiknaður út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu.

Skylt er að skrá stöðu kílómetramælis fyrir 20. janúar 2024 samkvæmt upplýsingum frá Skattinum. Ef ekki verður 20 þúsund króna vanskráningargjald lagt á og greiðandi boðaður í álestur. Stöðu á kílómetramæli skal skrá að lágmarki einu sinni á ári en hægt er að skrá á þrjátíu daga fresti.

Boðið er upp á þrjár leiðir til að skrá kílómetrastöðuna. Tvær eru rafrænar. Annars vegar á mínum síðum á Ísland.is og hins vegar í Ísland.is-appinu. Þeir sem ekki hafa tök á því geta pantað tíma í sérstakan álestur hjá faggiltum skoðunarstofum eða fengið álesturinn í reglubundnu eftirliti.

Faggiltar skoðunarstofur eru þau fyrirtæki sem annast bifreiðaskoðun í landinu. Ef skattgreiðandanum verður það á að skrá ranga tölu er hægt að gera aðra skráningu sama dag og gildir þá síðari talan. Ef gera þarf leiðréttingar er einnig hægt að senda tölvupóst á netfangið island@island. is.

Ef ekki eru til tvær skráningar hjá skattgreiðandanum mun ríkisskattstjóri áætla meðalakstur. Hjá einstaklingum eru það 38 kílómetrar á dag.

DEILA