Tími ákvarðana er runninn upp

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Fyrr á þessu ári óskaði umhverfis-, – orku og loftlagsráðherra  umsagna ýmissa aðila vegna greinargerðar um áhrif Vatnsdalsvirkjunar í Vesturbyggð á friðlandið í Vatnsfirði.  Greinargerðin sem um ræðir var unnin af verkfræðistofunni VSÓ  fyrir Orkubú Vestfjarða vegna beiðni frá ráðuneytinu um frekari upplýsingar í tengslum við erindi Orkubús Vestfjarða dags. 22. febrúar 2023 til ráðuneytisins, um breytingu á friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði.


Um erindi Orkubúsins

Í erindi Orkubúsins  var farið þess á leit við ráðherra að hann hlutist til um það eins fljótt og verða má að breyta reglum um friðlandið í Vatnsfirði í auglýsingu nr. 96/1975 þannig að Umhverfisstofnun/Orkustofnun sé heimilt að veita leyfi til virkjunar vatnasvæðis friðlandsins til að reisa og reka raforkuver innan friðlandsins með vísan til ákvæða 44. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. ákvæði 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Ástæða erindis Orkubúsins er að slík heimild er grundvöllur þess að hægt sé að taka virkjunarkostinn inn í venjulegt skipulagsferli, þ.m.t. til umfjöllunar í rammaáætlun og í umhverfismat.

Umsagnir og rammaáætlun
Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum ýmissa aðila um áðurnefnda greinargerð frá VSÓ Ráðgjöf.  Frestur til að skila inn umsögnum er nú liðinn. Orkubúið hefur fengið afrit af mörgum þeirra, en þær eru sumar mjög ítarlegar og  gætu því hugsanlega kallað á viðbrögð frá Orkubúinu.    Ítarlegustu upplýsingarnar um mögulega virkjun og áhrif hennar munu þó að mati okkar hjá Orkubúinu alltaf fást með því að fjallað verði um þennan virkjunarkost í rammaáætlun og síðar umhverfismati með tilheyrandi rannsóknum, eins og kemur reyndar vel fram í greinargerð VSÓ.

Virkjanir í forgang
Ein af þeim umsögnum sem borist hafa kemur frá bæjarstjórn Vesturbyggðar, en þar er lagt  til að aðrar virkjanir verði settar verði í forgang (Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun).  Ekki verður  séð að ákvarðanir um framkvæmdir við byggingu þessara tveggja virkjana séu á hendi umhverfis- orku- og loftslagsráðherra heldur eigenda verkefnanna.  Þær staðreyndir lágu fyrir þegar ráðherra skipaði starfshóp um raforkumál á Vestfjörðum í júní 2021, sem skilaði niðurstöðum í apríl 2022 og þegar ráðherra skipaði starfshóp um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum þann 1. september 2022, sem skilaði sínum niðurstöðum í formi skýrslu í júní 2023.

Niðurstöður beggja starfshópa eru á þá leið að virkjunarkostur í Vatnsfirði verði tekinn til umfjöllunar í rammaáætlun eða öðru því regluverki sem Alþingi kann að ákveða varðandi mögulega virkjunarkosti.

Forgangur liggur þegar fyrir
Hvað umsögn Vesturbyggðar varðar er mikilvægt að hafa í huga að bæjarstjórnin leggur áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum stjórnvalda og með tímasettum áföngum verði settar í forgang áður en kannað er hvort ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. 

Gera má ráð fyrir að þar sé átt við framkvæmdir í svæðisbundna flutningskerfi Landsnets sem lúta að tvöföldun kerfisins til sunnanverðra Vestfjarða, frá Mjólká að Keldeyri og tvöföldun til norðanverðra Vestfjarða frá Mjólká í Breiðadal.  Með því að þær tillögur hafa þegar verið settar fram í Kerfisáætlun Landsnets er Landsnet einmitt að setja þær í forgang.  Forgangurinn liggur þannig þegar fyrir og því er ekki ástæða til að bíða með það frekar að kanna hvort ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði.  Hvatning bæjarstjórnar til að flýta þessum framkvæmdum er auðvitað af hinu góða.

Tíminn verðmætur

Í umsögn sinni leggur bæjarstjórn til að lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Það er skilningur Orkubús Vestfjarða á umsögninni (bókun bæjarstjórnar) að í raun sé verið að biðja um frestun á ákvörðun sem þurfi samt að lokum að taka, af eða á.  Það er vegna þess að áhrifin af þeim framkvæmdum sem þegar hafa verið undirbúnar liggja nú þegar fyrir í útreikningum sem Landsnet hefur látið framkvæma.  Það að bíða með ákvörðunina hefði þann eina tilgang að tefja aðgerðir til úrbóta í orkumálum á Vestfjörðum í stað þess að tíminn sé nýttur til að bæta ástandið.  Ákvörðun sem tekin er núna gefur í raun bara meira ráðrúm til að undirbúa þær framkvæmdir vel sem ráðast þarf í, hverjar sem þær kunna að verða.

Áhrif umræddra framkvæmda eru ekki fullnægjandi

Áhrif umræddra svæðisbundina framkvæmda á afhendingaröryggi raforku er að það eykst um 34% á sunnanverðum Vestfjörðum en einungis um 16% á norðanverðum Vestfjörðum.  Það telur Orkubú Vestfjarða ekki fullnægjandi og er það ástæða þess að lagt er til að virkjað verði í Vatnsdal.

Með virkjun í Vatnsdal auk ofangreindra framkvæmda eykst afhendingaröryggið um 90% sem þýðir að á móti hverjum 10 straumleysistilfellum í dag yrði bara um eitt straumleysistilfelli að ræða. 

Tvöföldun Vesturlínu

Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur ríka áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar til að tryggja flutning raforku til og frá svæðinu.    

Orkubú Vestfjarða tekur undir með bæjarstjórn að framkvæmdir við tvöföldun Vesturlínu hefjist sem fyrst, enda gæti fyrsti áfangi tvöföldunar línunnar einmitt verið frá tengipunkti Landsnets í Mjólká að Vatnsdalsvirkjun.  Sá hluti línunnar liggur um land í eigu Orkubús Vestfjarða og íslenska ríkisins og ætti leyfi landeigenda því að vera auðsótt mál.  Fyrirsjáanlegt er að aðrir áfangar línulagnarinnar tækju talsvert mikið lengri tíma enda er Vesturlína 160 km löng og fer um 79 jarðir í eigu 262 þinglýstra landeigenda skv. athugun sem Orkubú Vestfjarða lét vinna fyrir sig sl. sumar.  Lagning annarrar Vesturlínu er því óhjákvæmilega langhlaup. Rétt er að benda á að Landsnet hefur svarað því til í umfjöllun um Kerfisáætlun 2023 – 2032 að nýting orkukosta á Vestfjörðum sé mjög mikilvægur þáttur í að tryggja orkubúskap Vestfjarða til lengri tíma og mun ákjósanlegri en tvöföldun allrar Vesturlínu frá Hrútafirði.

Bæjarstjórn vill ekki íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun

Ekki verður hjá því komist að rifja upp bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 17. Febrúar 2021, en þar segir m.a. í bókun um fyrirhugaðan þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum:

„Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.“

Þessi bókun ásamt bókunum annarra vestfirskra sveitarfélaga í þessa veru auk yfirlýsinga samtaka þeirra, á undanförnum árum, hafa verið mikilvæg hvatning til Orkubús Vestfjarða í rannsóknum og undirbúningi mögulegrar virkjunar í Vatnsdal í góðri sátt við íbúa, með lágmarks umhverfisáhrif að leiðarljósi.

Elías Jónatansson,
orkubússtjóri

DEILA