Ísafjarðarbær: mótmælum gegn aparólu hafnað

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Fyrir réttu ári samþykkti skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar mál vegna fyrirhugaðs leikvallar á Eyrartúni á Ísafirði þar sem m.a. var ráðgert að koma fyrir aparólu nálægt lóðarmörkum Túngötu 12. Var samþykkt að kynna uppdrætti leikvallarins fyrir íbúum bæjarins á heimasíðu þess og óskað eftir ábendingum frá almenningi. Í framhaldinu voru pöntuð leiktæki og framkvæmdin boðin út.
Í september gerði íbúi á Túngötu 12 athugasemdir við samþykkt útboð á þeim grundvelli að fyrirhuguð staðsetning aparólu væri í ósamræmi við gildandi deiliskipulag. Nefndin hins vegar taldi að framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og væri ekki framkvæmdaleyfisskyld.
Kærandi segir að fyrir liggi að leikvöllurinn á Eyrartúni muni hafa veruleg grenndaráhrif á íbúa Túngötu 12, sérstaklega hvað varði hljóðvist og innsýn. Með hliðsjón af því og þar sem um sé að ræða mikla breytingu á ásýnd svæðisins sé framkvæmdin leyfisskyld. Horfa verði á svæðið í heild sinni en nú sé þegar kominn ærslabelgur á Eyrartún.
Framkvæmdin var þá kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þess krafist að ákvörðun nefndarinnar verði felld úr gildi. Í málinu var jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarnefndin kvað upp sinn úrskurð 22. desember sl. og taldi að ákvörðun nefndarinnar væri ekki kæranleg til nefndarinnar þar sem ekki væri um stjórnvaldsákvörðun að ræða tekna á grundvelli skipulagslaga og vísaði kærunni frá.

DEILA