Ísafjarðarbær: ágreiningur um leigu á geymsluhúsnæði

Húsaleigusamningnur um Sindragötu 11 á Ísafirði, fyrir héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn, til 10 ára var samþykktur í bæjarstjórn í síðustu viku með fimm atkvæðum Í lista gegn tveimur atkvæðum D lista. Bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.
Jóhann Birkir Helgason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins benti á að samningsfjárhæðin væri 6,3 m.kr. á ári eða samtals 63 milljónir króna sem væri langt yfir viðmiðunarupphæð þeirri sem kveðið er á um í lögum um opinber innkaup og því beri að viðhafa útboð. Miðað er við útboð ef samningsfjárhæðin er 15,5 m.k. eða hærri. Ísafjarðarbær hafði fyrir fundinn gert leigusamning við Sundatanga ehf um leigu á 338 fermetrar í sérrými á 2. hæð að Sindragötu 11. Jóhann vísaði einnig til 11. gr. innkaupareglna Ísafjarðarbæjar sem mæla fyrir um að nota verðfyrirspurn, verðkönnun eða almennt útboð ef ekki er unnt að kaupa á grundvelli rammasamnings. Ísafjarðarbær væri að brjóta eigin reglur. Almennt skuli viðhafa útboð og undarlegt að það skuli ekki hafa verið gert. Sagðist hann ekki geta stutt leigusamninginn.
Fram kom í máli bæjarstjóra Örnu Láru Jónsdóttur að bærinn hafi þegar tekið húsnæðið í notkun. Arna Lára sagði að í 4. gr. innkaupareglnanna væri undanþága frá útboðsskyldunni og þar væri heimilað að taka á leigu húsnæði án útboðs.
Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrui Framsóknarflokksins sagði að líklega væri ekki um annað húsnæði að ræða í þessu tilviki en hins vegar væri prinsippið gilt og útboð hefði leitt í ljós hvert framboðið væri á húsnæði og mögulegt verð.

DEILA