GEFUM ÍSLENSKU SÉNS UM JÓLIN

Undanfarið hefir nokkuð borið á átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Reglulega hefir það staðið að uppákomum sem allar lúta sama markmiði, að auka vitund fólks, og þá ekki síst móðurmálshafa, fyrir því hvað máltileinkun (það að læra tungumál) felur í sér ásamt því að hvetja fólk til að leggja sitt lóð á vogarskálina við að hjálpa fólki að læra íslensku. Allir geta verið svokallaðir almannakennarar. Í hnotskurn er málið þau einföldu skilaboð að íslenska lærist ekki sé enska alltaf notuð og að fólk þurfi að fá tækifæri til að nota málið. Tækifæri sem móðurmálshafar geta vissulega veitt sé vilji og áhugi fyrir hendi.

Auðvitað er málið ekki alveg svona einfalt en við ætlum ekki að hafa mörg orðum um það hér heldur hvetjum við áhugasama að kynna sér málin. Best fer hugsanlega á því í gegnum FB-síðu átaksins en þar að auki má finna ýmislegt um átakið á www.bb.is. Þess má auk þess geta að áður en langt um líður fer heimasíða átaksins í loftið. Tekið hefir verið frá lénið www.gefumislenskusens.is.

Hæst ber þó í þessu öllu að átakinu hlotnaðist viðurkenning á dögunum. Gefum íslensku séns var sæmt Evrópumerkinu sem er verðlaun fyrir nýsköpun í tungumálakennslu.

Viðurkenningin er kærkomin og gefur átakinu byr undir báða vængi. Er því ljóst að átakið er komið til að vera og mun vonandi hafa áhrif á landsvísu þótt enn sem komið er sé átakið mestmegnis bundið við Vestfirði.

Í desembermánuði stendur svo ýmislegt til. Nú þegar hefir verið haldin hraðíslenska á Bryggjukaffi á Flateyri svo og Þriðja rýmið í Bókasafni Ísafjarðar. Næstkomandi mánudag ætlum við svo að standa fyrir Litlu jólum Gefum íslensku séns í Háskólasetri Vestfjarða. Leikar hefjast klukkan 17:00 og hvetjum við alla til að koma og þá sérstaklega þá sem eiga erlendan maka sem vill læra íslensku. Að sjálfsögðu með maka sinn sér við hlið. Málið snýst um að kynna íslenskar jólahefðir og er þá ekki úr vegi að gera það saman. Svo er það hraðíslenska eða JÓLAHRAÐÍSLENSKA sem á sér stað fimmtudaginn 21. desember á Dokkunni klukkan 18:30. Og til að fyrirbyggja misskilning snýst málið ekki um að tala hratt. Nei, þvert á móti snýst það um að tala hægt, skýrt og skiljanlega. Jólaglögg verður í boði en áhugasamir þurfa að skrá sig í gegnum islenska(hja)uw.is eða símleiðis í gegnum 8920799.

Eins og flestir hafa líkast til ekki farið varhluta af stendur nokkur styr um íslenskuna þessi dægrin. Mikið er rætt um að hún eigi undir högg að sækja. Það er vissulega rétt. En sé vilji til að snúa við blaðinu er það í okkar höndum. Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag vill hjálpa til í þeim efnum, að skapa tækifæri á báða bóga með bros á vör, ekki fingur á lofti. Og það er vissulega mikið sem móðurmálshafinn getur gert til að auka hvata og færni fólks. Íslenska lærist nefnilega EKKI einvörðungu, nema þá í undantekningartilfellum, í skóla. Hún lærist í samfélaginu, af fólkinu sem kann hana, af fólkinu sem heldur henni að þeim sem hana læra. Verða því ætíð hvati og tækifæri að vera til staðar. Hvernig væri að skapa slík tækifæri? Hvernig væri að gefa íslensku séns um jólin?

Fyrir hönd átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri átaksins

DEILA