Landsréttur: ólögmæt ákvörðun ráðherra bakaði ríkinu skaðabótaskyldu

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi ráðherra.

Á föstudaginn sneri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. júní 2022 og dæmdi ríkið til þess að greiða fyrrverandi skrifstofustjóra í Atvinnuvegaráðuneytinu Jóhanni Guðmundssyni 23,6 m.kr. að viðbættum vöxtum, auk 2,5 m.kr. í málskostnað. Féllst Landsréttur á bótakröfu áfrýjandans eins og hún var sett fram fyrir Landsrétti.

Landsréttur hafnaði málatilbúnaði ríkisins, sem hélt því fram að niðurlagning starfs skrifstofustjórans hefði einvörðungu tengst skipulagsbreytingum í ráðuneytinu og segir í dómnum að ekki verði um villst „að ráðherra og ráðuneytisstjóri töldu að afskipti áfrýjanda af birtingu laga nr. 101/2019, og eftir atvikum aðrar athafnir í embætti, hafi verið ósamrýmanleg stöðu hans sem skrifstofustjóra í ráðuneytinu.“

beiðni um frestun á gildistöku laga ástæðan

Þarna var um að ræða breytingu á lögum um fiskeldi sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2019 og voru undirrituð af forseta Íslands 1. júlí. Lögin nýju breyttu m.a. ákvæðum laganna um úthlutun leyfa til fiskeldis. Skrifstofustjórinn hafði beðið um frestun á birtingu laganna um nokkra daga. Þá var fyrirhugað að birting laganna yrði 14. júlí en hún varð 18. júlí. Tæpu ári síðar, samkvæmt því sem fram kemur í dómi Landsréttar, hafi ráðuneytið fengið vitneskju um frestunina og ráðherra Kristján Þór Júlíusson sendi skrifstofustjórann í leyfi með þeim orðum að „ákveðin fiskeldisfyrirtæki kynnu að hafa haft verulega hagsmuni af því að gildistöku laga nr. 101/2019 yrði frestað“ og í framhaldinu lagði hann niður starfið.

Landsréttur segir að þessi beiðni um frestun á gildistöku laganna sé raunverulega ástæðan fyrir niðurlagnings starfsins og snýr því við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Við þessar aðstæður beri ráðherra að fara að ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og láta rannsaka embættisfærslur starfsmannsins. Það að leggja niður starfið hafi verið leið til þess að fara framhjá lögbundnu ferli og ekki málefnaleg og því ólögmæt ákvörðun sem bakaði ríkinu skaðabótaskyldu.

ekki liggur fyrir að hann hafi brotið af sér í starfi

Landsréttur minnir á að ráðherra vísaði embættisfærslum skrifstofustjórans til lögreglu til rannsóknar. Í bréfi héraðssaksóknara til Jóhanns, tæpum tveimur árum seinna, segir að rannsókn hafi verið hætt. Ekki fáist séð að athafnir hans hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila eða hins opinbera. „Frekari rannsókn er að mati embættis héraðssaksóknara ekki líkleg eða til þess fallin að sýna fram á sekt yðar, eða upplýsa um málið frekar“. Landsréttur segir í dómnum að ekki verði „slegið föstu í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og þeirra annmarka sem voru á ákvörðun um starfslok áfrýjanda að hann hafi brotið af sér í starfi.“ og að „Telja verður að ráðherra hafi mátt vera ljóst þegar hann tók ákvörðun um starfslok
áfrýjanda að ákvörðunin væri til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda“.

íþyngjandi lagasetning ástæðan frestunar

Fram hefur komið í frétt á Bæjarins besta um rannsókn Héraðssaksóknara að skýringar Jóhanns Guðmundssonar hafi verið þær að um íþyngjandi lagasetningu hafi verið að ræða fyrir fyrirtæki sem voru í umsóknarferli um leyfi til fiskeldis og hann hafi viljað koma í veg fyrir að lagasetningin skapaði skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart þeim fyrirtækjum og að seinkunin hafi verið 3 – 4 dagar. Héraðssaksóknari féllst á þessar skýringar og sagði í bréfi sínu að ekki hafa verið sýnt framá að hann hafi misnotað stöðu sína öðrum eða honum sjálfum til ávinnings. „Þá fæst ekki séð að athafnir yðar hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila né hins opinbera, sbr. m.a. framangreint minnisblað.“

Ríkisendurskoðandi gagnrýndi frestunina

Í byrjun ársins blandaði Ríkisendurskoðandi sér inn í þetta mál í skýrslu embættisins um sjókvíaeldi. Þá hafði héraðsdómur fallið í málinu og hafði sýknað ríkið. Ríkið hélt því fram, eins og fyrr greinir, að niðurlagning starfsins hafi verið ótengd ákvörðun um frestun á gildistöku laganna um fiskeldi. Ríkisendurskoðandi gerði frestunina að gagnrýnisratriði og segir hana alvarlega sem sé „til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af
hálfu stjórnvalda. Ásýndin er sú að þau fyrirtæki sem skiluðu frummatsskýrslum milli samþykktar og gildistöku laganna hafi notið góðs af frestun birtingarinnar og fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna.“

Þetta segir Ríkisendurskoðandi þrátt fyrir að málið hafi verið rannsakað og að ótvíræð niðurstaða hafi legið fyrir þegar hann skrifaði sína skýrslu, sem segir að embættismaðurinn hafi gætt að hagsmunum ríkisins og ekki hallað réttindum neins aðila í málinu. Það má spyrja sig hvaða tilgangi þessi afskipti Ríkisendurskoðanda þjónaði. Hann er greinilega að grafa undan tiltrú á framkvæmd laga um fiskeldi.

Landsréttur hefur nú bætt við sinni niðurstöðu í dómsmálinu og segir að ekki verði slegið föstu miða við gögn málsins að skrifstofustjórinn hafi brotið af sér í starfi.

dylgjur Ríkisendurskoðanda

Hvað gerir Ríkisendurskoðandi nú? Mun hann leiðrétta skýrslu sína um sjókvíaeldið og fella burt dylgjur sínar um óeðlilega stjórnsýslu að þessu leyti. Að öðrum kosti verður hann að koma hann fram með rökstuðning sem heldur vatni. Eftir dóm Landsréttar getur þessi gagnrýni Ríkisendurskoðanda ekki staðið óhögguð.

Fiskeldi er ung atvinnugrein sem vissulega þarf vandaða lagaumgjörð. Ábendingar frá stofnun eins og Ríkisendurskoðun eru mikilvægar, en þá verða þær að vera vandaðar og lausar við dylgjur og órökstuddar ávirðingar.

-k

DEILA