Inga Lind : fer enn með fleipur

Í sjónvarpsþætti á RÚV, sem nefnist vikan með Gísla Marteini og var sýnur föstudaginn 27. október sl. var Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarmaður í íslenska náttúruverndarsjóðnum, IWF, the icelandic wildlife fund í umræðu um dægurmál vikunnar og sérstaklega sjókvíaeldi.

Í samræmi við ákvæði fjölmiðlalaga frá 2011 um lýðræðislegar grundvallarreglur er RÚV gert að gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna. Var það gert með því að fulltrúi andstæðinga sjókvíaeldis var einn í þættinum og enginn stuðningsmaður eldisins hvorki þá , fyrr né síðar. Þetta er svona RÚV útfærsla á lagaákvæðinu.

Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarmaður IWF gerði mikið úr umsvifum stangveiðinnar, um væri að ræða stóra atvinnustarfsemi sem sæist best á því að í kringum Vestfjarðakjálkann, á Vesturlandi og Norðurlandi væru 68% af tekjum bænda af laxveiði.

Ekki var innt eftir rökstuðningi við þessa staðhæfingu enda Gísli Marteinn tillitssamur við stangveiðifólkið.

En það er einnar messu virði að fara ofan í tiltækar upplýsingar um þetta mál. Atvinnuumsvif skipta máli og ekki síður þær tekjur sem bændur kunna að hafa af stangveiðinni.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að 13% er rétta svarið á Vesturlandi og 4% á Norðurlandi sem er víðs fjarri þeim 68% sem Inga Lind hélt fram.

Það sem hér er byggt á er skýrsla sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir landssamband veiðifélaga en það er félagsskapur landeigenda sem eiga veiðiréttinn í ánum. Skýrslan heitir Virði lax- og silungsveiða og kom út í október 2018.

Hagfræðistofnunin aflaði upplýsinga símleiðis um tekjur og kostnað og fjárfestingar frá veiðiréttarhöfum.

Stofnunin greinir tekjur af veiðiréttinum eftir landssvæðum sem ganga til landeigenda og einnig samanlagðar tekjur landeigenda og þeirra sem selja veiðleyfin og veita þjónustuna við stangveiðimennina. Síðan eru sundurliðaðar tekjur af landbúnaðarframleiðslu einnig eftir landssvæðum svo og launagreiðslur.

Þá kemur þessi tafla:

13% og 4% en ekki 69%

Þarna má sjá töluna 69% sem eru samanlagðar tekjur á Vesturlandi sem hlutfall af launakostnaði. Þetta er talan sem Inga Lind, og reyndar fleiri úr þessu sauðahúsi hafa notað í umræðunni um laxeldi og stangveiði. En Inga Lind sagði að þetta væri hlutfall af tekjum bænda en ekki af launakostnaði.

En það þarf að taka út úr tekjur landeigenda því staðhæfingin snýst um hvað veiðirétturinn gefi bændum. Draga verður frá tekjur þjónustu- og söluaðilanna. Það tekur fram í skýrslunni að tekjur veiðiréttarhafa á Vesturlandi eru 924 m.kr. og að kostnaður þeirra er talin vera 200 m.kr. Það eru því 724 m.kr. sem bændurnir eða veiðiréttarhafa fá í sinn hlut. Framleiðsluvirði landbúnaðar á Vesturlandi er talinn vera 5.626 m.kr. Veiðirétturinn bætir við 724 m.kr. og er því 13% af framleiðsluvirði bænda en ekki 68%.

Fyrir Norðurland eru tölurnar 770 m.kr. í greiðslur fyrir veiðiréttinn og tilkostnaður þeirra er 160 m.kr. Það gefur 610 m.kr. í tekjur af veiðiréttinum og framleiðsluvirði landbúnaðar er 14.065 m.kr. Veiðirétturinn er því aðeins 4% af framleiðsluvirði landbúnaðarins í landshlutanum.

Séu tekjurnar af veiðiréttinum mældar á móti launakostnaði og hagnaði þá fæst að hlutfallið er 33% á Vesturlandi og 11% á Norðurlandi. Sem er líka víðs fjarri þeim 68% sem haldið var fram.

Svo þarf að hafa í huga að ekki eru bændur eigendur að öllum veiðirétti og tekjur af sölu veiðileyfa ganga ekki allar til bænda. En ekki liggur fyrir mat á því hvað það er stór hluti teknanna.

Ekki er að efa að tekjur af leigu ánna til stangveiði gefur ágætlega af sér og kemur bændum vel að fá þær tekjur. En það eru miklar ýkjur að halda því fram að 68% af tekjum bænda komi af leigu á rétti til lax- og silungsveiði.

Það er sannast sagna fleipur einar.

-k

DEILA