Þráinn og Freyja fá heiðursslaufur Sigurvonar

Hlaupahópur Öllu vakti mikla athygli í maraþoninu – bæði þeir sem voru að hlaupa og eins klappliðið sem hvatti alla til dáða.

Freyju Óskarsdóttur og Þráni Ágústi Arnaldssyni voru veittar heiðursslaufur krabbameinsfélagsins Sigurvonar í bleikum október. Var það gert í þakklætisskyni fyrir frábært framtak þeirra í þágu félagsins. Þráinn og liðsfélagar hans í handboltadeild Harðar framleiddu bleika styrktartreyju í þágu Sigurvonar og bleiku slaufunnar og seldu í október í fyrra. Þá léku þeir einnig í bleikum treyjum þann mánuð í Olís-deild karla til að vekja athygli á félaginu og áverknisátakinu.

Freyja stofnaði Hlaupahóp Öllu í minningu systur sinnar Aðalbjargar Óskarsdóttur og safnaði hópurinn áheitum í þágu Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst. Safnaði hópurinn næstum 3,5 milljónir króna sem rennur beint til þeirra sem Sigurvon styður í krabbameinsbaráttunni en félagið veitir styrki til að reyna jafna þann búsetumun sem hlýst af því að þurfa að sækja mestu meðferðina utan heimabyggðar.

Þráinn og vinur hans Stefán Már Arnarsson stóðu fyrir því að selja treyjur til styrktar Bleiku slaufunni og Sigurvon og vakti framtakið mikla athygli.  „Aðalástæðan fyrir þessari hugmynd og þessu verkefni var tenging okkar Stefáns við fjölskyldumeðlimi sem höfðu greinst með krabbamein. Mín tenging er að hún mamma mín (Hjördís Þráinsdóttir) sem ég þori að segja að margir, ef ekki flestir fyrir vestan viti hver er, greindist með brjóstakrabbamein rétt fyrir Covid-19 eða í janúar 2020 svo það er rétt hægt að ímynda sér hversu erfitt þetta var fyrir hana sem og marga í fjölskyldunni. Í dag er mamma krabbameinslaus og hefur aldrei verið sterkari og er ég stoltur að geta kallað hana mömmu mína,“ sagði Þráinn er hann veitti heiðursslaufunni viðtöku.

Freyja var erlendis og gat því ekki veitt heiðurslaufunni viðtöku en það þótti vel við hæfi að foreldrar þeirra Öllu tækju við henni fyrir hönd hennar og hlaupahópsins. Var þeim Óskari Torfasyni og Guðbjörgu Hauksdóttur var afhent slaufan með viðhöfn á svæðisfundi stjórnar félagsins á Café Riis á Hólmavík í vikunni.

Sigurvon nýtur alltaf góðs af hlýhug og velvilja Vestfirðinga og í ár þótti ómögulegt að velja á milli þessara tveggja frábæru einstaklinga sem hafa stutt svo dyggilega við félagið. Ákvað því stjórnin að veita tvær heiðursslaufur til að reyna sýna hversu þakklát og meyr hún er yfir stuðningnum.

Martha Kristín Pálmadóttir afhenti Óskari Torfasyni og Guðbjörgu Hauksdóttur heiðursslaufu Sigurvonar.

Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins og heiðursslaufurnar tvær má finna á vefsíðu Sigurvonar: https://www.krabbsigurvon.is/

DEILA