Minning: Sigurður Sigurdórsson

f. 1. júlí 1933 – d. 16. október 2023.

Jarðsunginn frá Hveragerðiskirkju 26. október 2023.

Í föðurkyn var Sigurður af Ásgarðsætt í Grímsnesi, fólki prest-feðganna á Hrafnseyri, föður og afa Jóns forseta. Föðuramma Sigurðar, Helga húsfreyja í Götu í Ytri-Hrepp, var dótturdóttir Eiríks Ólafssonar, bónda á Þóroddsstöðum í Ölfusi. Eiginkona Eiríks var Helga, dóttir Jóns Bjarnasonar á Vindási í Hvolhreppi, Halldórssonar, bónda á Víkingslæk á Rangárvöllum, ættföður Víkingslækjarættar.

Árið 1947, þegar Sigurður var 14 ára, tóku við búi af foreldrum hans, Sigurdóri Stefánssyni bónda í Götu og Katrínu Guðmundsdóttir húsfreyju, systir Sigurðar, Ágústa, og maður hennar Stefán Scheving Kristjánsson. Um sama leyti fór Sigurður að vinna af bæ, m.a. á jarðýtu í Ölfusi og Hreppum. 1950 fór hann á síld, á bát sem gerður var út frá Reykjavík, en veitt var fyrir norðan land.  Í Vestmannaeyjum var hann á vertíð 1953. Í  vertíðarlok fékk hann vinnu við byggingu Hvítárbrúar hjá Iðu og  minntist ævilangt þeirrar miklu framkvæmdar í góðum félagsskap.

               Sigurður lærði járnsmíði hjá K.Á á Selfossi og tók námið 4 ár. Eftir það hélt hann til höfuðstaðarins og hóf að starfa hjá Steypustöðinni.  Í Reykjavík kynntist hann konuefni sínu, Sigríði Erlu Ragnarsdóttur, sem var falleg stúlka og vel af Guði gerð.  Foreldrar hennar voru Þórunn Guðmundsdóttir frá Mosdal, í samnefndu dalverpi, sem gengur inn í vesturströnd Önundarfjarðar, og Ragnar Gíslason, vélamaður í Reykjavík,  ættaður frá Stakkhamri í Miklholtshreppi í Hnappadalssýslu, sonur Svövu Sigurðardóttur og Gísla Gíslasonar, sem bjuggu á Sundbakka IV í Viðey. Ungu hjónin fóru búnaði sínum til Flateyrar, þar sem þau bjuggu í 40 ár. Fyrstu árin vestra var Sigurður vélstjóri á sjó, síðan í 20 ár vélstjóri í Frystihúsinu.  En þar kom, að hann lauk upp sínu eigin járnsmíðaverkstæði.  Árið 1960 keypti hann sér 6 tonna bát og var á skaki á sumrin. Æ síðan átti Sigurður bát, síðast Sóma 800, 4,6 brúttótonn.

               Árið 1999 fóru þau Erla búferlum suður í Hveragerði og þar stóð fallegt heimili þeirra síðan.  Hjónabandið var farsælt og varð þeim þriggja barna auðið.  Fyrir hjónaband eignaðist Sigurður dóttur, Fjólu Sigurðardóttur.  Móðir hennar var Angela Guðbjörg Guðjónsdóttir.

               Sigurður var tæpur meðalmaður á hæð, vel á fót kominn, fríður sýnum og jafnan með gleðibragði, þó þéttingsgeðríkur bak við.  Hann var afburða dugnaðarforkur,  fjörmikill félagsmálagarpur, fróður, ræðinn og skemmtilegur. Á níræðisafmæli hans 1. júlí síðastliðinn var hann sæmdur Kjaransorðu, æðstu viðurkenningu Lionshreyfingarinnar á Íslandi. Var Sigurður vel að þessum heiðri kominn, því að honum var alla stund mjög um það hugað, að starf klúbbanna gengi skafið; fyrst á Flateyri og síðan í Hveragerði. Þætti honum þar eitthvað á vanta, hikaði hann ekki  við að veita mönnum ádrepu.  En svo hreinlyndur sem hann var, hóf hann jafnan  mál sitt með því að segja brosandi:  “Ég þarf að skamma þig!” Það fór ekki fram hjá skynugum piltum, að meðan á yfirhellingunni stóð, varð Sigurði aldrei litið á meintan sökudólg; aftur hafði hann ekki augun af Erlu, konu sinni, eins og hann, trúlega að ófrávíkjanlegri venju, vildi bera undir hana málflutning sinn.

               Guð blessi minningu þessa glaðlynda, velviljaða og hjálpsama drengs.  Guð blessi, huggi og styrki ástvini hans alla.

               Gunnar Björnsson,

               pastor emeritus.

DEILA