Laxeldi: sjöföld meiri velta en hjá Domino’s

Á föstudaginn mátti heyra á Bylgjunni um morguninn Ingu Lind Karlsdóttur, stjórnarmann í íslenska náttúruverndarsjóðnum, IWF, hallmæla laxeldi í sjókvíum á alla lund. Meðal þess sem hún týndi laxeldi til hnjóðs var lítil þýðing þess í atvinnumálum.

Sagði hún að fjöldi starfa sem að einhverju leyti tengdust sjókvíaeldinu væri aðeins 1/3 þess sem væri hjá Domino’s pizzum, fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og þar að auki væri það mest erlendir farandverkamenn sem störfuðu í fiskeldinu.

Þetta eru miklar yfirlýsingar en engin rökstuðningur var færður fyrir þeim. Engu að síður er fyllsta ástæða til þess kanna, eftir föngum, hvað hið rétta er málinu.

nærri þrefalt fleiri störf í fiskeldi en hjá Domino’s og hærri laun

Byrjum á Domino’s. Fyrirtækið Pizza-pizza ehf rekur 22 veitingastaði með heimsendingarþjónustu á flatbökum undir vörumerki og sérleyfi frá Dominos. Í ársreikningi fyrirtækisins fyrir 2022 kemur fram að á árinu störfuðu að meðaltali 258 starfsmenn hjá félaginu og námu launagreiðslur samtals 2.064 millj. kr.

Á radarnum, mælaborði sjávarútvegsins, kemur fram að 685 manns hafi starfað beint við fiskeldi á síðasta ári og launagreiðslur 6.500 milljónir króna.

Það er því rangt að fjöldi starfa í fiskeldinu hafi verið 1/3 af störfum hjá Domino’s. Hið rétta er að störfin í fiskeldinu voru nærri þrefalt fleiri en hjá Domino’s. Eftirtektarvert er að laun á hvert starf hjá Domino’s var um 8 m.kr. en í fiskeldinu voru meðallaunin 9,5 m.kr. eða nærri 20% hærri.

fáir farandverkamenn

Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda farandverkamanna í fiskeldinu, en það verður kannað á næstu dögum. Hjá Arctic Fish fengust þau svör að fjórir flóttamenn frá Úkraínu væru við störf en að aðrir starfsmenn væru búsettir hér á landi og hefðu verið það síðustu sex mánuði. Þau tímamörk skipta máli þar sem þá fara skattgreiðslur til innlendra yfirvalda. Arnarlax, er stærsta fiskeldisfyrirtækið hér á landi með um þriðjunginn af umsvifunum. Þar er verið að taka saman þessar upplýsingar og verða þær birtar í vikunni en eftirgrennslan Bæjarins besta bendir til þess að fáir, ef nokkrir, erlendir farandverkamenn séu við störf hjá fyrirtækinu.

Telja má víst eftir þessi svör að fullyrðingar Ingu Lindar þess efnis að það væru mest erlendir farandverkamenn sem starfa í fiskeldinu séu fjarri lagi.

mikil fjölgun starfa undanfarin ár og einnig framundan

Vert er að vekja athygli á því að störfum í fiskeldi hefur fjölgað mikið á fáum árum. Frá árinu 2008 hafa þau meira en fjórfaldast. Fyrst og fremst er vöxturinn vegna aukningar í laxeldinu í sjókvíum. Þar var framleiðslan í fyrra 45 þúsund tonn og heildarframleiðslan í eldinu 51 þúsund tonn. Þegar hafa verið gefin út leyfi fyrir um 100 þúsund tonna eldi í sjókvíum og var því framleiðslan í fyrra aðeins um helmingur þess. Framundan á næstu árum er veruleg framleiðsluaukning og gæti framleiðslan tvöfaldast.

Það er alveg augljóst að beinu störfin, sem voru 685 í fyrra verða miklu fleiri, kannski ekki tvöfalt fleiri, en fjölgunin mun skipta hundruðum.

Hjá Domino’s er störfunum hins vegar að fækka. Þau voru 299 árið 2019 en 258 í fyrra. Fækkun starfanna er 16%.

Í báðum tilvikum á eftir að reikna með óbeinu störfin sem bætast við beinu störfin. Þar er næsta víst að fiskeldið hefur yfirburði yfir pizza söluna, án þess að nokkuð sé gert lítið úr þeirri framleiðslu. Þjóðhagslegt vægi fiskeldisins er gríðarlegt og mun það standa að verulegu leyti undir bættum lífskjörum almennings næsta áratuginn ef fram fer sem horfir.

tekjur 40 milljarðar kr. af laxeldi en 6 milljarðar kr. af sölu á pizzum

Fiskeldi og pizza sala eru ólíkar atvinnugreinar. Domino’s aflar tekna eingöngu á innanlandsmarkaði með sölu á pizzum. Tekjur fyrirtækisins í fyrra námu 6.1 milljarði króna. Fiskeldið selur nær allar sínar afurðir til útlanda svo það eru erlendir neytendur sem í raun senda peningana sína til Íslands. Þessar tekjur standa undir öllum tilkostnaði hér á landi við eldi, svo sem launum starfsmanna. Af þessu tekjum fær svo hið opinbera, ríki og sveitarfélög, skatttekjur bæði af launagreiðslum og framleiðslu.

Heildartekjur fiskeldisins í fyrra voru 49 milljarðar króna og laxeldið eitt og sér gaf þar af 40,5 milljarða kóna. Laxeldið skilaði því nærri sjö sinnum meiri tekjum en salan hjá Domino’s.

Innan fárra ára verður framleiðsluverðmæti laxeldisins orðið álíka og alls þorskstofnsins, 100 – 150 milljarðar króna.

Til samanburðar skal þess getið að framkvæmdastjóri Landsambands veiðifélaga upplýsir 3. apríl sl. í bréfi til Matvælaráðuneytisins að beinar tekjur veiðifélaga af lax- og silungsveiði séu 3 milljarðar króna á ári.

Það er ekki að efa að landeigendum munar um þær tekjur og ekki skal á nokkurn hátt gert lítið úr þýðingu þeirra, en það er nokkur kokhreysti, svo ekki sé fastar að orði kveðið, hjá þessum samtökum, að krefjast þess að banna laxeldið og þar með kasta út um gluggann 100 – 150 milljörðum króna til þess að vernda 3 milljarða króna.

En ríka konan í Garðabænum þarf svo sem ekki að hugsa um það.

-k

DEILA