Hringferð samtaka atvinnulífsins – fundur á Ísafirði á morgun

Samtök atvinnulífsins (SA) halda opinn vinnufund á Hótel Ísafirði í fyrramálið um lausnir til að losa íslenskt efnahagslíf út úr vítahring verðbólgu og vaxta. SA segja það algjört forgangsatriði fyrir bæði fyrirtæki og heimili og bjóða öllum sem eiga heimangengt að þiggja kaffi og hádegisverð og eiga gott samtal.

SA hóf í vikunni ferð sína um landið um þetta viðfangsefni og er Ísafjörður næsti viðkomustaður.

Fundaröðin um landið er haldin í aðdraganda kjarasamninga en þeir renna flestir út í lok árs.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir fundarefnið hafa valið sig sjálft því það sé stærsta áskorunin fyrir íslenskt samfélag. „Við sjáum mikinn samhljóm um það. Það að verðbólga sé 8% og stýrivextir 9,25% er ólíðandi, hvort sem fólk rekur heimili eða fyrirtæki.“

Atvinnulíf og almenningur í takt samkvæmt Gallup

SA kynnti nýverið niðurstöður könnunar sem Gallup gerði meðal félaga í SA og innan síns viðhorfahóps um komandi kjarasamninga. 91% aðildarfyrirtækjanna og 72% í viðhorfshópnum sögðu mesta forgangsmálið að ná samningum sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu.

„Því er mikilvægt að fara í þessa hringferð til að ræða hvað aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld, almenningur eða einstök fyrirtæki geti gert til að brjótast út úr þessum vítahringt. Við vitum að aðilar vinnumarkaðsins geta haft talsverð áhrif og við finnum til ábyrgðar. Það skemmir ekki fyrir að ræða þessi mál yfir rjúkandi heitum kaffibolla og góðum hádegisverði með skemmtilegu fólki“, segir Sigríður Margrét kankvís.

Hún segir fyrstu fundina hafa gengið vonum framar og fulltrúar samtaka launafólks hafi tekið virkan þátt. „Það skiptir máli að við séum samtaka um markmiðin þótt okkur greini á um leiðirnar. Þá er mikilvægt að taka samtalið. Hreyfingar bæði launþega og atvinnurekenda geta haft mikil og jákvæð áhrif fyrir samfélagið. Til dæmis var lífeyrissjóðakerfinu komið á í gegnum kjarasamninga fyrir um 50 árum.“

Sigríður Margrét segir háa vexti vera farna að bíta en mörg fyrirtæki sækja útlánsvexti upp á 15%. „Arðsemi fyrirtækja var 20% lægri á fyrri helmingi þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Háir vextir auka ekki bara kostnað heldur draga úr fjárfestingum til framtíðar.“

Af öðrum verkefnum sem fyrir liggja nefnir hún húsnæðismálin. „Við sjáum eðlilega mikla áherslu á húsnæðismálin, þann kostnað sem undirliggjandi framboðsvandi skapar fyrir bæði heimilin beint en líka í formi verðbólgu.“

Opni fundurinn er haldinn á Hótel Ísafirði og hefst klukkan 10:30.

Skráning: https://www.sa.is/starfsemin/vidburdir/093011112111

DEILA