Fyrstu fræðimennirnir í Grímshúsi

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. forseti Íslands.

Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar kynnti fyrir rúmu ári verkefnið „Fræðadvöl í Grímshúsi” á Ísafirði og nú hefur sérstök valnefnd ákveðið hverjir verða fyrstu vísindamennirnir og sérfræðingarnir sem munu dvelja á Ísafirði. Alls voru 251 umsækjendur frá um 60 löndum.

Valnefnd á vegum Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar hefur valið 10 fræðimenn sem munu dvelja í Grímshúsi á tímabilinu haust 2023 til sumars 2025.

Valnefndin er skipuð af Matthildi Maríu Rafnsdóttur, fyrir hönd Hringborðs Norðurslóða, Dr. Peter Weiss fyrir hönd Háskólaseturs Vestfjarða og Dr. Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur fyrir hönd Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. 

Fræðadvölin er í samvinnu við Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og líftæknifyrirtækið Kerecis.
Fræðadvölinni er ætlað að skapa erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum, fræðimönnum, rithöfundum og fleirum kost á því að dvelja í 2-6 vikur í Grímshúsi, Túngötu 3 á Ísafirði þar sem fjölskylda Ólafs Ragnars bjó á sínum tíma. Ólafur Ragnar Grímsson eignaðist helming hússins fyrir nokkrum árum og býður æskuheimili sitt, tvær hæðir og ris, sem dvalarstað fræðimanna.

Áformað er að sérhver fræðimaður haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum; ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík eða Akureyri.


Á þessu ári verða tveir fræðimenn. Það eru Seira Duncan frá Bretlandi. Verkefni: „Andleg vellíðan meðal frumbyggjasamfélaga á Norðurslóðum á tímum loftslagsbreytinga.” Og Dina Brode-Roger frá Bandaríkjunum og Frakklandi. Verkefni: „Hvernig skilningur á umhverfinu hefur áhrif á áhættumat á Norðurslóðum: Samanburðarrannsóknir á Longyearbyen, Svalbarða og Ísafirði.”
DEILA