Eiríkur Örn Norðdahl með nýja bók

Kynning á nýrri bók eftir Eirík Örn Norðdalh hefur verið send út og er þannig:

Undur og stórmerki: Náttúrulögmálin

Landsmenn og listaspírur, lesendur! Bókmenntaáhugafólk – athugið! Á komandi vikum mun rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl þræða firði þessa lands, knæpur þess, bókasöfn og kaffihús og lesa fyrir þjóðina úr nýrri skáldsögu sinni, Náttúrulögmálin, sem kemur í bókabúðir þann 19. október. Hefjast leikar á Byggðasafni Vestfjarða laugardaginn 21. október kl. 16.

Náttúrulögmálin er ástarsaga með yfirskilvitlegum litbrigðum, í senn söguleg skáldsaga og taumlaus fantasía. Hún gerist á Ísafirði árið 1925 og fjallar (meðal annars!) um hundrað drykkfellda presta og einn óviljugan biskup – en líka búðarlokuna Engilráð í Turninum og blaðakonuna Rósu Maju á Lúðrinum, séra Jónas mannspart og Imbu sel, Guð almáttugan í upphæðum og jafnvel andskotann sjálfan, ef vel er að gáð.

Auk þess að lesa upp mun Eiríkur sýna myndir og ræða við lesendur, áhorfendur og áheyrendur um sögusviðið, trú og hjátrú, ástina og svikult eðlið, náttúru manna, fjalla og hafs, og allra handa hamfarir. Þá verður bókin til sölu og áritunarpenninn á lofti.

Byggðasafn Vestfjarða, 21. október kl. 16. Léttar veitingar í boði.

DEILA