Hafnarstjórn Bolungavíkur hefur fengið til umfjöllunar teikningar og minnisblöð frá hafnarsviði Vegargerðarinnar með tillögu að lenginu á varnargarði í framhaldi af Brimbrjótnum svo og með tillögu að landfyllingu norðan við Brimbrjót.
Hafnarstjórn vísaði tillögunum til vinnu við framtíðarsýn Bolungarvíkurhafnar sem stefnt er að ljúka fyrir lok apríl 2024.
Gert er ráð fyrir að rannsóknir og hönnun taki um eitt ár og að framkvæmdatími sé um 2 ár í hvoru verki um sig.
Ástæða þessara tillagna er aukin starfsemi á hafnarsvæðinu með sláturhúsi Arctic Fish og vaxandi umsvifum Örnu mjólkurvinnslu.
Innsiglingin er ekki nógu góð fyrir brunnbáta Arctic Fish enda þurfa þeir að geta nýtt hana allt árið. Er því ráðgert að lengja Brimbrjótinn um 112 metra sem myndi skila 100 metra lengingu miðað við vatnsdýpi. Miðað er við að garðurinn sé á 10 metra dýpi.
Kostnaðarmat Vegagerðarinnar miðast við grjót sé sótt í grjótnámu á Skálavíkurheiði og er 670 milljónir króna.
Vegna þarfar fyrirtækjanna tveggja fyrir aukið landrými lagði Vegagerðin mat á kostnað við landfyllingu norðan Brimbrjóts. Var annars vegar miðað við 20.000 fermetra landfyllingu og hins vegar 30.000 fermetra. Í fyrri kostinum verður grjótgarðurinn 380 metra langur og fyllingarmagn um 198.000 rúmmetrar. Kostnaður er áætlaður 852 milljónir króna.
Í seinni kostinum verður grjótgarðurinn 450 metra langur og fyllingarmagn 272 þúsund rúmmetrar. Kostnaður er áætlaður 1.189 milljonir króna.
Uppdráttur af 20.000 fermetra landfyllingu norðan Brimbrjóts.