Minning: Sigríður Ragnarsdóttir

f. 31. október 1949 – d. 27. ágúst 2023.

               Jarðsungin frá Kópavogskirkju 8. september 2023.

Sá góði og ógleymanlegi kennari, síra Jóhann heitinn Hannesson, guðfræðiprófessor, hélt því fram, að ekki væri unnt að eignast vel gefin börn með heimskum konum.  Í hugann koma öflugar mæður á borð við Helgu sælu Þorsteinsdóttur frá Narfeyri á Skógarströnd, móður Katrínar fiðlukennara Árnadóttur tónskáls Björnssonar, og Margréti Árnadóttur frá Látalæti á Landi (Múli núna), móður Jakobs  fiðluleikara og organista Hallgrímssonar söngkennara Jakobssonar.  Og síðast og ekki síst mamma hennar Siggu Ragnars, Sigríður Jónsdóttir frá Gautlöndum í Mývatnssveit, dóttir Jóns Gauta Péturssonar bónda og ráðherra þar Jónssonar og Önnu Jakobsdóttur bónda á Narfastöðum í Reykjadal Jónssonar.

Sigríður, sem var kölluð Sigga stóra til aðgreiningar frá dóttur sinni, sem kölluð var Sigga litla, kenndi tónfræði við Tónlistarskóla Ísafjarðar, en skólastjóri hans var maður hennar, öðlingurinn, eldhuginn og tónlistarfrömuðurinn landskunni, Ragnar H. Ragnar.

Ragnar fæddist hinn 28. september 1898 að Ljótsstöðum í Laxárdal í Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, sonur hjónanna Hjálmars Jónssonar búfræðings frá Skútustöðum og Áslaugar Torfadóttur skólastjóra í Ólafsdal Bjarnasonar.  Margvíslegar gáfur og fjölskrúðugir hæfileikar eru áberanði í þessum ættum.

Ragnar ólst upp hjá foreldrum sínum á Ljótsstöðum og hóf snemma að leggja hönd að venjulegum bústörfum.  Faðir hans var dugmikill verkmaður og gerði harðar kröfur til sona sinna.  Æskstöðvarnar fylgdu Ragnari alla ævi líkt og veisla í farangrinum.  Hann var alla ævi elskhugi ósnortinnar náttúru í dalnum sínum heima.  Laxá þótti honum fegurst áa í heimi hér og þótt víðar væri leitað.  Hann var einlægur aðdáandi fiskjarins, sem vakir og stekkur í hyljum og strengjum, og hann var elskur að hrauninu, skóginum, ilminum úr jörðini, lindinni, sóleyjunum í varpanum og himninum bláum og djúpum.

Eiginkona Ragnars, Sigga stóra, var geislandi skemmtileg kona, viðbrigðagestrisin, elastískt ræðin, búin næmri spauggreind, brosmild og aðhlægin.  Var dáðst að þeirri aðferð hennar við tónfræðikennsluna, að þegar börnin voru að læra nóturnar, sagði hún þeim, að línurnar í G-lykli væru, taldar neðan frá:  Einar Gunnar Halldórsson datt flatur.  En í F-lykli væru þær, sömuleiðis taldar að neðan og upp úr:  Gunnar Halldórsson datt flatur aftur.

               Ekki er kunnugt um neina konu, sem átti jafn auðvelt og hún með að halda uppi samræðum við gestinn á meðan hún var að matbúa eða baka í eldhúsinu.  Dögum oftar tylltu komumenn sér niður á koll hjá henni og horfðu á hana vinna.  Hún  hélt fullkomlega þræði í samtali, þótt samæfinga-kakan bakaðist í ofninum, það snarkaði í steikta fiskinum á pönnunni, komið væri að því að skræla kartöflurnar og leggja á borðið – og síminn hringdi frammi í forstofu hússins nr. 5 við Smiðjugötu.

               Skýrt og alveg einstakt mark á Tónlistarskóla Ísafjarðar settu samæfingarnar svonefndu á sunnudögum, sem haldnar voru allan veturinn.  Þegar samæfingin var úti, vann Sigríður manni sínum og kennurunum afbragðs góðan beina; það var setið í kringum borðstofuborð þeirra hjóna, notið veitinganna og skrafað og skeggrætt.  Var borið fram kaffi, sérstök samæfingakaka, afar bragðgóð, og nýbakaðar vöfflur með sultu og þeyttum rjóma.

               Hljómleikar voru haldnir þrisvar á ári, ýmist í sal Grunnskólans eða í Alþýðuhúsinu:  jólatónleikar, miðsvetrartónleikar og vortónleikar.  Til þess var ætlast, og ríkt eftir því gengið, að hver einasti nemandi kæmi fram – og mun það aftur einsdæmi.  Mundu margir utanaðkomanði ætla, að erfitt hefði verið að fá áheyrendur á þessa hljómleika alla, en raunin var önnur;  yfirleitt komust færri að en vildu.

               Kammersveit Vestfjarða starfaði um tíu ára skeið á áttunda og níunda tug síðustu aldar.   Meðlimir hennar um lengri eða skemmri tíma voru  Jónas Tómasson, Erling Sörensen og Þuríður Pétursdóttir flautuleikarar, Hjálmar H. Ragnarsson, Sigríður Ragnarsdótttir og Margrét Gunnarsdóttir píanóleikarar, Jakob Hallgrímsson og Leifur Þórarinsson fiðluleikarar, Gilbert Darryl Wieland og Jan Henrik Henriksson gítarleikarar,  Michael Holtermann klarinettuleikari og presturinn í Bolungarvík, sem lék á celló.

               Minnisstæð er  tónleikaferð Kammesveitarinnar um Norðurland og móttökur Ingvars Þórarinssonar, bóksala á Húsavík, ógleymanlegar.  Ingvar var náfrændi Jónasar Tómassonar, þeir skyldir að öðrum og þriðja.

               Ragnar og Sigga stóðu fyrir óslitnu gestaboði á menningarlegu heimili sínu við Smiðjugötuna og hvöttu hina ungu til dáða og kynni af þeim og börnum þeirra voru  ævintýri líkust og ógleymanleg.

               Við andlát Sigríðar Ragnarsdóttur er sem stórmerkur og glæstur kapítuli tónlistarlífs á Vestfjörðum hafi verið á enda skráður. Nýjum kafla er óskað alls velfarnaðar.

Sigríður var réttnefndur sómi stéttar sinnar og sönn fyrirmynd í því, sem fagurt var og nytsamlegt.  Guð verndi, huggi og styrki Jónas og ástvinina alla.  Guð blessi minningu mætiskonunnar Sigríðar Ragnarsdóttur.

               Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA