Laxinn: stórfelldar sleppingar um áratugaskeið án merkis um erfðablöndun

Um áratugaskeið var það stundað að sleppa laxaseiðum í miklum mæli í laxveiðiár og blandað saman stofnum. Þrátt fyrir það sagði forstjóri Hafrannsóknarstofnunar fyrir 6 árum í viðtali við RUV að engin merki væri um erfðablöndun í Djúpinu og forsvarsmenn landsambands veiðifélaga, sem beita sér mjög gegn sjókvíaeldi, efast ekki almennt um hreinleika laxastofnana.

Af því tilefni að eldislaxar sluppu úr kví í Patreksfirði og einhverjir tugir þeirra hafa synt upp í ár hafa verið höfð uppi stóryrði og talað um hörmungar, hamfarir, erfðamengun og látið eins og laxastofnar landsins hafi orðið fyrir óbætanlegu tjóni.

Fiskirækt í laxveiðiám landsins á sér áratuga langa sögu og sama má segja um sjókvíaeldi með lax. Rétt er að rifja upp nokkur atriði um stórfelldar sleppingar í ár, langvarandi markvissa erfðablöndun stofna og minna á að þrátt fyrir þetta hafa ekki orðið nein, eftir því sem best er vitað, varanleg áhrif á einstaka stofna, m.a. að mati þeirra sem nú halda því fram ein slysaslepping sé við það að gera út af við stangveiðina á landsvísu vegna erfðamengunar.

Sex milljón seiði í árnar

Íslenska ríkið rak sérstaka tilraunastöð í Kollafirði við Faxaflóa fyrir klak og eldi laxfiska. Safnað var hrognum úr laxi frá 14 ám víðsvegar á landinu. Rúmur helmingur hrognanna var úr Elliðaánum, 13% úr tveimur ám á Vesturlandi, 21% frá fjórum ám á Norðurlandi og tæp 10% úr ám í Árnessýslu. Úr þessum hrognum voru klakin út seiði og þau seld til sleppingar í hinar ýmsu ár um allt land eða til fiskeldisstöðva og hafbeitarstöðva. Frá þessu er ítarlega greint í skýrslu Veiðimálastofnuna frá 1989. Ekkert er sagt um samsetningu seiðanna út frá uppruna þeirra sem fór í einstakar ár og líklega hefur verið um að ræða einhvern kokteil, en víst er að seiðin voru ekki af sama stofni og fyrir var, nema þá í undantekningatilvikum. Sem sé, þarna var um að ræða umfangsmikla blöndun laxastofna.

Nákvæmlega er sundurliðað hve mörg seiði fóru í hverja á sundurliðað eftir árum á árabilinu 1964 til 1989. Á þessum aldarfjórðungi seldi Kollafjarðarstöðin um þrjár milljónir pokaseiða og sumaralinna seiða og auk þess um þrjár milljónir gönguseiða eða samtals um sex milljón seiði sem fóru beint í einstakar ár eða til eldisstöðva.

Sem dæmi um á má nefna Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu. Í hana voru sett 85.600 seiði á árunum 1964 -1978, en það er margfalt meira en nemur stærð laxastofnsins í ánni. Miklu magni af seiðum var dælt í fjölmargar vestfirskar ár á þessu árabili. Engi vafi er á því að með þessari fiskirækt, sem veiðiréttarhafar stóðu fyrir, hafi orðið blöndun milli stofna og blendingsseiði hafi orðið til og trúlega síðar komu fram kynþroska erfðablandaðir fiskar. En greinilega hefur sú blöndun gengið til baka í tímans rás þar sem nú er enginn sem heldur því fram að blöndun sé við lýði. Hvað varð um erfðablöndunina má spyrja.

Þeir sem nú halda því fram að ein slysaslepping leiði af sér hörmungar og hamfarir fyrir gervalla laxastofna landsins þurfa að svara því hvað varð um áhrifin af því að blanda saman stofnum úr mörgum ám og dæla seiðunum í ár um allt land um áratugaskeið. Svarið við því er einfalt. Fræðimennirnir svara því og lesa má svarið m.a. í áhættumati erfðablöndunar frá Hafrannsóknarstofnun. Til þess að erfðablöndun verði þarf mikla og viðvarandi innblöndun um langan tíma og þegar henni linnir gengur blöndunin til baka. Ein slysaslepping hefur engin varanleg áhrif, hún er eins og áhrif af einni steinvölu sem kastað er í Atlantshafið. Áhrifin fjara út fyrr en varir.

Úr skýrslu Veiðimálastofnunar sem sýnir sölur árið 1981. Það ár voru 170 þúsund seiði seld í einstakar ár, 240 þúsund seiði í hafbeitarstöðvar og 155 þúsund smáseiði seld án þess að fylgi sundurliðun eftir ám.

Villti laxinn hefur meiri lífslíkur

Einn af fræðimönnunum, sem ritað hefur um þetta efni er Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur frá Flateyri. Í riti hans frá 2016 um náttúrulega laxastofna o. fl. sem unnið var fyrir Háafell hf og fylgir frummatsskýrslu fyrirtækisins segir að lífslíkur eldislax sé mun minni en villts lax.

„Þegar skoðuð er lifun allt frá hrygningu (hrogn) þar til kynþroska lax skilar sér af hafi þá er hún mun hærri hjá villtum laxi en eldislaxi. Niðurstöður rannsóknar í Noregi sýndi að lífslíkur afkomenda eldislaxa var áætluð 16% af lífslíkum afkomenda villtra laxa. Þessi munur er aðallega talinn stafa af litlu framlagi við hrygningu, meiri afföllum á hrognastigi og snemma á seiðastigi. Í annarri tilraun sem framkvæmd var á Írlandi var áætlað að lífslíkur eldislaxa væri 7% af lífslíkum villtra laxa.“

Þarna er ólíku saman að jafna og Valdimar hnykkir á þessu með því að segja að „atferli eldislaxa við hrygningu er afbrigðilegt og framlag þeirra litið, sérstaklega hænga“. Þetta rímar við það sem annar fræðimaður, Ólafur Sigurgeirsson, lektor við Háskólann á Hólum hefur sagt og hann bendir á náttúruvalið sem miskunnarlaust vinni sitt verk sbr. kenningar Darwins.

Við þetta má bæta að eftir því sem ræktun eldislaxins stendur í fleiri kynslóðir þá verður hann lakari í samkeppninni við villta laxinn.

Erfðablöndun milli stofna getur átt sér stað. Til þess þarf mikil áhrif í langan tíma og þegar tekur fyrir þau áhrif gengur blöndunin til baka af þeirri einföldu ástæðu að eldislaxinn verður undir.

Löggjöf um fiskeldi er ströng hér á landi með tilliti til umhverfisþátta og rík áhersla er á að vernda stöðu villtra nytjastofna laxins. Slysasleppingin nú er vissulega ekki neinum til góðs, en hún er stök, takmörkuð og vel innan marka áhættumats Hafrannsóknarstofnunar. Engin blöndun hefur orðið og enginn laxastofn hefur skaðast og ef einhver blendingsseiði verða til síðar munu áhrifin af þeim fjara fljótt út.

-k

DEILA