Ísafjörður: álagningu fasteignagjalda breytt

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til breytingar á vatnsgjaldi. Í gildandi gjaldskrá er það 0,02% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 0,30% af fasteignamati annarra eigna.

Nefndin leggur til við bæjarstjórn að breyta álagningarforsendum vatnsveitu og miða við fast gjald á fasteign annars vegar og krónugjald á fermetra fasteignar hins vegar. Með því verður horfið frá að innheimta miðað við fasteignamat hverrar fasteignar. Lagt er til að fast gjald á íbúðarhúsnæði verði 1.500 kr. og fermetragjald verði 18,30 kr. Lagt er til að fast gjald atvinnuhúsnæði verði 20.447 kr. og fermetragjald verði 128,30 kr. Lagt er til að aðrir liðir gjaldskrár hækki um 6%.

Ekki kemur fram hver meðalhækkunin verður né tekjur bæjarsjóðs af þessum tekjustofni eftir þessa breytingu.

Í gildandi fjárhagsáætlun eru tekjur vatnsveitunnar áætlaðar 72.421.000 kr.

Fráveitugjald verði fermetragjald

Lagt til við bæjarstjórn að breyta álagningarforsendum fráveitu og miða við fast gjald á fasteign annars vegar og krónugjald á fermetra fasteignar hins vegar. Með því verður horfið frá að innheimta miðað við fasteignamat hverrar fasteignar. Lagt er til að fast gjald á fasteign verði 8.000 kr. og fermetragjald verði 185 kr. Lagt er til að aðrir liðir gjaldskrár hækki um 6%.

Í dag er holræsagjald 0,15% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og lóðar og 0,30% af öðru húsnæði.

Ekki er upplýst hverjar áætlaðar tekjur af fráveitugjaldinu verða svo breyttu.

sorphirða hækkar um 15%

Lagt til að hækka gjaldskrá sorphirðu um 15% vegna hækkunar á vísitölu og vegna uppfærðar magnskrár verksamnings.

Tillögurnar verða teknar til afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi.

DEILA