Merkir Íslendingar – Ólafur Þ. Kristjánsson

Ólafur Þ. Kristjánsson var fæddur þann 26. ágúst 1903 i Hjarðardal ytri i Önundarfirði. Hann ólst upp á Kirkjubóli í Bjarnardal.

Foreldrar Ólafs voru Kristján Guðjón Guðmundsson bóndi á Kirkjubóli í Bjarnardal og Bessabe Halldórsdóttir.

Systkini  Ólafs voru; Halldór frá Kirkjubóli og Guðmundur Ingi, skáld á Kirkjubóli og Jóhanna á Kirkjubóli.

Ólafur Þ. Kristjánsson lauk kennaraprófi árið 1928. Hann kenndi fyrst við Hvítárbakkaskóla 1928-29 en eftir það við Barnaskóla Hafnarfjarðar.

Ólafur Þ. var síðar settur skólastjóri í Flensborgarskóla í Hafnarfirði þar sem hann var skólastjóri í tæpa tvo áratugi. Annálaður kennari og ræðumaður, þótti sjófróður og skemmtilegur.

Ólafur var kjörinn bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1938—1942 og síðar 1950—1958, en hann tók virkan þátt í starfsemi Alþýðuflokksins og sat m.a. í miðstjórn hans.

Ólafur tók alla tíð virkan þátt í starfsemi Félags esperantista og var ritari þess um árabil. Hann var í framkvæmdanefnd Stórstúku íslands frá 1958 og stórtemplar árið 1963.

Ólafur Þ. Var einn ættfróðasti maður landsins. Það gagnaðist honum vel þegar hann ritstýrði Kennaratalinu, sem var sannkallað stórvirki.

Ólafur Þ. Kristjánsson kvæntist árið 1931 Ragnhildi Gísladóttur (1904-1996) frá Selárdal í Arnarfirði.

Börn þeirra:
Ásthildur (1933-2018)
Kristján Bersi (1938-2013)
og Ingileif Steinunn (1939)


Ólafur Þ. Kristjánsson  andaðist á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði þann 3. ágúst 1981.

Kennaratalsnefnd: Ólafur Þ. Kristjánsson ritstjóri, Ingimar Jóhannesson, Vilbergur Júlíusson, Guðmundur I. Guðjónsson. Kennaratalið kom út í heftum 1956-65.
Verkið var endurútgefið 1985-88 með æviágripum nýrra kennara og viðbótum við æviskrárnar í upprunalega verkinu. Dótturdóttir Ólafs Þ. Sigrún Harðardóttir  ritstýrði því verki.

DEILA