Umferdin.is á pólsku og fleiri nýjungar

Ýmsar nýjungar er nú að finna á umferdin.is, ferðarvef Vegagerðarinnar.

Vefurinn er nú einnig á pólsku, hægt er að sjá staðsetningu sína á kortinu og vefmyndavélar eru aðgengilegri og meira áberandi.

Vefurinn fór í loftið í október 2022 með það að markmiði að auðvelda vegfarendum að finna upplýsingar um færð á vegum um landið. Þar eru færðarupplýsingar, veðurupplýsingar, umferðartákn í rauntíma, upplýsingar um vetrarþjónustu, vegaframkvæmdir, umferðartölur og fleira.

Frá upphafi hefur vefurinn verið bæði á íslensku og ensku. Nú er búið að bæta við þriðja tungumálinu, pólsku. Er það til að koma til móts við stóran hóp Pólverja sem býr og starfar á Íslandi og gera þeim auðveldara að nálgast mikilvægar upplýsingar þegar ekið er um landið.

Fleiri nýjungar verða til við uppfærslu vefsins. Þannig er hægt að kalla fram staðsetningu tækis á korti. Með því að smella á tákn á síðunni getur viðkomandi séð hvar hann er staddur á landinu.

Notendur vefsins hafa kallað eftir því að vefmyndavélar verði gerðar aðgengilegri á vefnum. Nú hefur verið brugðist við því. Myndavélarnar birtast nú fyrr á kortinu þegar það er skoðað og hægt er að kalla þær allar fram í einu. Það er gert með því að smella á „stillingar“ og haka í boxið „Birta allar vefmyndavélar“.

Hingað til hefur ekki verið hægt að skoða færðarupplýsingar aftur í tímann, en nú er hægt að skoða fyrri skráningu á öllum þjónustuleiðum.

DEILA