Þorsteinn Goði vann silfur á heimsleikum Special Olympics í Berlín

Þorsteinn Goði með þjálfara sinum og fjölskyldu. Myndir: aðsendar.

Þorsteinn Goði Einarsson frá Bolungavík náði þeim einstæða árangri á heimsleikum Special Olympics að vinna silfur í badminton. Þorsteinn Goði keppir fyrir íþróttafélagið Ívar á Ísafirði. Þjálfari hans var Jónas Sigursteinsson, íþróttakennari.

Leikarnir voru haldnir í Berlín í Þýskalandi í síðasta mánuði. Þrjátíu íslenskir keppendur tóku þátt í leikunum og kepptu í 10 íþróttagreinum. Alls voru 7.000 keppendur sem kepptu í 29 íþróttagreinar. Þátttökulöndin voru 190 og 20.000 sjálfboðaliðar störfuðu á leikunum.

Keppt er í mismunandi styrkleikaflokkum og allir hafa sömu möguleika á gullinu.

Special Olympics samtökin voru stofnuð árið 1968 af Kennedy fjölskyldunni. Markmið var að gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til æfinga og keppni í íþróttum. Árið 2023 eru skráðir iðkendur um 5 milljónir og viðmið byggir í dag á hvort einstaklingur þurfi aðstoð við nám eða í daglegu lífi. Tækifæri hafa því opnast fyrir mun fleiri iðkendur en áður. Sérstök áhersla er núna á „unified“ keppni þar sem fatlaðir og ófatlaðir keppa saman.

Góðir gestir mættu til Berlínar að fylgjast með leikunum m.a. Elíza Reid forsetafrú og Ásmundur Einar Daðason mennta og barnamálaráðherra sem gengu inn með íslenska hópnum á opnunarhátíðinni. Sendiráðið í Berlín aðstoðaði við undirbúning og vildi allt fyrir hópinn gera. 120 aðstandendur fylgdust með og hvöttu keppendur áfram og íslenski hópurinn fann alls staðar fyrir velvild og stuðningi.

Þorsteinn Goði í keppni í badminton á leikunum.
Þorsteinn Goði með verðlaunapeninginn með forsetahjónunum.

DEILA