Þeir sem eru 50 – 54 ára hafa mestu tekjurnar

Hagstofan birti í morgun tölur yfir heildartekjur landsmanna árið 2022.

Heildartekjur eru hæstar að meðaltali í aldurshópnum 50-54 ára en sá hópur er með 11,3 milljónir króna á ári.

Tölurnar byggja á skattframtölum einstaklinga. Heildartekjur samanstanda af atvinnutekjum, fjármagnstekjum og öðrum tekjum.

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali árið 2022, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði. Það er um 9% hækkun frá fyrra ári, sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6%. Miðgildi heildartekna var um 6,6 milljónir króna á ári, sem sýnir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 554 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 10,7%, en með tilliti til raunhækkunar var hækkunin 2,2%.

Meðaltal atvinnutekna var um 5,8 milljónir, meðaltal fjármagnstekna um 0,8 milljónir króna og meðatal annarra tekna um 1,7 milljónir. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

DEILA