Sauðfjársetrið: Töfrasýning, tónleikar og smiðjur á Náttúrubarnahátíð

Hægt að að prófa að fara á kajak. Myndir: aðsendar.

Það verður mikið fjör á Ströndum helgina 14.-16. Júlí. Þá verður haldin árleg Náttúrubarnahátíð á Sauðfjársetrinu, sem er skammt sunnan við Hólmavík. Að venju verður þar fjölbreytt og skemmtileg dagskrá, en um er að ræða fjölskylduhátíð þar sem börn og fullorðnir fá tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn. Á dagskránni eru bæði útivist, fróðleikur, smiðjur og listviðburðir. Ókeypis aðgangur er að hátíðinni og öllum viðburðum.

Dagrún Ósk Jónsdóttir heldur utan um Náttúrubarnaskólann og sér um undirbúning hátíðarinnar: „Þetta gengur bara eins og í sögu og ég hlakka mikil til. Dagskráin er frábær, fjölbreytt og skemmtileg atriði, tónlist, spennandi smiðjur, gönguferðir og útivist. Boðið er upp á kvöldskemmtun með Gunna og Felix, Ingó Geirdal töframaður verður með magnaða töfrasýningu, Benedikt búálfur og Dídí koma í heimsókn. Það verða spennandi smiðjur og stöðvar meðal annars frá Þykjó, Náttúruminjasafni Íslands og Eldraunum. Hægt verður að fara á hestbak hjá Strandahestum og prófa sjókajak, taka þátt í núvitundarævintýri, gönguferðum, útileikjum, spurningaleik um náttúruna, hlusta á drauga- og tröllasögur, skjóta af boga, búa til flugdreka og náttúruskúlptúr og ótal margt fleira. Hátíðinni lýkur svo jafnan með fjölskylduplokki í fjörunni, þar sem náttúrubörnin hugsa vel um umhverfið.“

Veðrið er ekkert sérstakt áhyggjuefni segir Dagrún: „Við hefjum hátíðina alltaf á því að framkvæma veðurgaldur, til að tryggja gott veður fyrir helgina, enda fer hún að mestu fram utandyra. Það hefur ekki klikkað hingað til.“

Hægt er að hafa ókeypis á hátíðina út af veglegum styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og svo styrkir Orkubúi Vestfjarða hátíðahöldin. „Við erum ótrúlega þakklát fyrir þetta, það er mikilvægt að geta haft ókeypis aðgang. Öll börn eiga rétt á menningu og fræðslu og það er gaman að læra að þekkja náttúruna,“ segir Dagrún. “Gestir hátíðarinnar geta tjaldað frítt á bænum Kirkjubóli sem er í göngufæri við Sævang, þar sem hátíðin fer fram, þar er þó ekki eiginlegt tjaldsvæði (ekkert rafmagn). Á Hólmavík er svo frábært tjaldsvæði og ýmsir gististaðir í grenndinni. Það er hægt að kaupa súpu, grillaðar pylsur, samlokur og ís í Sævangi alla helgina, bæði grænmetis og ekki.”

„Það þarf ekkert að bóka, bara mæta á staðinn, kynnast náttúrunni, leika sér saman og skapa skemmtilegar minningar fyrir fjölskylduna,“ segir Dagrún að lokum. Hægt er að kynna sér hátíðina og dagskrána á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans og viðburðinum Náttúrubarnahátíð á Ströndum 2023: https://www.facebook.com/events/1150749338837171.

Eldsmiðjan.
Gunnar og Felix skemmta á hátíðinni.

DEILA