Minning: Nanna Magnúsdóttir

f. 4. janúar 1930 – d. 16. júlí 2023.

               Jarðsungin frá Þingeyrarkirkju 29. júlí 2023.

Á öndverðri 19. öld var prestur í Bólstaðarhlíð í Húnavatnsprófastsdæmi síra Björn Jónsson, sonur Jóns Hólastólsráðsmanns Árnasonar og konu hans, Margrétar Jónsdóttur frá Vík á Vatnsnesi. Frá þeim er Bólstaðarhlíðarætt. Síra Björn var talinn með bestu kennimönnum, en var jafnframt búsýslumaður mikill og starfsamur.  Fyrri eiginkona hans var Ingibjörg Ólafsdóttir á Frostastöðum, Jónssonar.  Hún lést árið 1816 og ári síðar gekk síra Björn að eiga Valgerði Klemensdóttur að Haukagili í Vatnsdal.  Þau Valgerður voru barnlaus, en með Ingibjörgu eignaðist síra Björn átta dætur.  Meðal þeirra var Elísabet, sem átti síra Jón Pétursson í Steinnesi, son Péturs lögréttumanns Sigurðssonar á Mýlaugsstöðum, og síðar á Einarsstöðum í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi, og Guðrúnar Jónsdóttur, systur síra Ingjalds að Múla.  Síra Jón þótti hinn merkasti maður um alla hluti.  Sonur þeirra síra Jóns og frú Elísabetar var síra Jón í Steinnesi, átti Elínu Einarsdóttur að Skógum Högnasonar, en meðal barna þeirra var Valgerður Þórunn, er átti síra Tómas Hallgrímsson á Völlum í Svarfaðardal.   Dætur þeirra voru Elísabet, sem átti Anton Proppé verslunarstjóra á Þingeyri og Elín Rannveig, eiginkona Angantýs búfræðings og verslunarstjóra á Þingeyri Arngrímssonar.  Angantýr var sonur þess  góðfræga völundar Arngríms málara Gíslasonar og konu hans Þórunnar Hjörleifsdóttur prests á Völlum Guttormssonar. Dóttir þeirra Elínar Rannveigar og Angantýs var Ingunn Elín, móðir Nönnu Magnúsdóttur.

               Eiginmaður Ingunnar Elínar og faðir Nönnu var Magnús Amlín Ingibjartsson, framkvæmdastjóri í Þingeyrarhreppi, sonur Ingibjarts Valdimars Sigurðssonar, skipstjóra á Þingeyri.  Foreldrar Ingibjarts voru hjónin Sigurður Amelín Guðmundsson, sjómaður á Hólum í Dýrafirði og Guðrún Jónsdóttir bónda í Arnardal Halldórssonar.  Bróðir Ingibjarts var Guðmundur Jón Sigurðsson, vélsmiður á Þingeyri, faðir snillingsins Matthíasar Guðmundssonar tæknifræðings og forstjóra í Vélsmiðjunni þar.  Eiginkona Guðmundar Jóns og móðir Matthíasar var  Estíva Sigurlaug Björnsdóttir frá Litlavelli í Reykjavík Björnssonar, en við hana er kennt Estívuhús á Þingeyri.  Í Estívuhúsi bjuggu síðast þau Matthías Guðmundsson og eiginkona hans, Camilla Sigmundsdóttir kaupmanns á Þingeyri Jónssonar og konu hans, Fríðu Jóhannesdóttur alþingismanns Ólafssonar og konu hans, Helgu Samsonardóttur á Granda í Dýrafirði Samsonarsonar.  Bróðir Jóhannesar var Matthías alþingismaður Ólafsson.

               Nanna Magnúsdóttir var af traustum ættum og leyndi það sér ekki af höfðinglegu yfirbragði hennar og alúðlegu viðmóti.  Eiginmaður hennar var Jónas Ólafsson, af Skarðsætt,  sveitarstjóri Þingeyrarhrepps, sonur Ólafs Jónssonar póstmeistara á Þingeyri og konu hans, Elínborgar Sveinsdóttur.  Í tíð Jónasar sveitarstjóra var Þingeyri að almannavitni snyrtilegasta sjávarplássið á Vestfjörðum.  Allir eru afkomendur þeirra Nönnu og Jónasar myndarfólk og vel gefið.

               Guð blessi minningu mætiskonunnar Nönnu Magnúsdóttur.  Hann huggi og styrki ástvini hennar alla.

                                                                                         Gunnar Björnsson,

                                                                                         pastor emeritus.

DEILA