Ísafjarðarbær: vill minnka strok eldislaxa

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar framkominni skýrslu starfshóps matvælaráðuneytis um strok úr sjókvíaeldi.

Í sérstakri bókun segir bæjarráðið að unnt væri að tvöfalda leyft heildarmagn eldisfisks í Ísafjarðardjúpi ef áhættan af erfðablöndun væri lægri. Bendir bæjarráðið á að af þeim tveimur tölum sem notaðar eru við ákvörðun hámarksmagns fiskeldis (burðarþol og áhættumat erfðablöndunar) er áhættumatið talsvert lægra. Gott samstarf eldisfyrirtækja, yfirvalda og annarra hagaðila er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirði segir í bókuninni.
Bæjarráð tekur ekki afstöðu til einstakra tillagna skýrslunnar en leggur að stjórnvöldum og eldisfyrirtækjum að hraða innleiðingu alls þess sem minnkað getur strok og afleiðingar þess.

Starfshópurinn var skipaður síðastliðin október og var falið að fara yfir þær reglur sem um strok gilda og afla gagna um sambærilegar reglur í Noregi og Færeyjum og koma með eftir atvikum tillögur um breyttar reglur og verkferla. Fram kemur í skýrslunni að starfshópurinn ákvað að horfa eingöngu að reglum í Noregi þar sem aðstæður í Færeyjum væru frábrugnar íslenskum aðstæðum.

Í starfshópnum voru fulltrúar matvælaráðuneytisins, Matvælastofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Fiskistofu.

DEILA