Forsætisráðuneytið: engin svör borist eftir 4 vikur

Fánar Sjómannadagsins í Bolungavík og auð fánastöng milli þeirra þar sem þjóðfáninn var.

Forsætisráðuneytið hefur engin svör gefið við fyrirspurn Bæjarins besta þar sem sérstaklega er spurt að því hvort litið sé svo á að það sé óvirðing við þjóðfánann að hafa hann á sjómannadaginn milli fána sjómannadagsins. Vísað er til þess að lögreglan á Vestfjörðum fjarlægði þjóðfánann sem var milli tveggja fána sjómannadagsins í Bolungavík.

Þrátt fyrir að fyrirspurnin hafi verið ítrekuð hafa engin viðbrögð orðið af hálfu forsætisráðuneytisins fjórum vikum eftir að fyrirspurnin var send.

Í fánalögum er mælt fyrir um það að ekki megi óvirða þjóðfánann í orði né verki. Lögreglan á Vestfjörðum vísaði til þess að forsætisráðuneytið hefði sett reglur um notkun þjóðfánans þar sem segir að ekki skuli raða fánum sveitarfélaga, félaga eða fyrirtækja milli þjóðfána.

Jafnfram er ráðuneytið innt eftir því hvar í fánalögum sé að finna stoð fyrir þessum fyrirmælum ráðuneytisins enda verður það að teljast langsótt að fánar sjómannadagsins séu óvirðing við þjóðfánann.

DEILA