Vilja auka ávinning nærsamfélaga af orkuvinnslu

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að hefja skoðun á skattalegu umhverfi orkuvinnslu. Markmiðið er að skapa nýja skattalega umgjörð fyrir vinnsluna og kanna leiðir til að ávinningur vegna auðlindanýtingar, þ.m.t. vegna orkuframleiðslu, skili sér í ríkari mæli til nærsamfélaga og þeirra aðila sem fyrir áhrifum verða.

Starfshópurinn skal afla upplýsinga og gagna um úrlausnarefnið ásamt því að skoða þau atriði sem fram koma í stöðuskýrslu starfshóps um málefni vindorku sem skilað var til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í apríl.

Starfshópinn skipa:

  • Hilmar Gunnlaugsson, skipaður af fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður 
  • Kristín Haraldsdóttir skipuð af fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
  • Daníel Svavarsson, forsætisráðuneyti
  • Árni Sverrir Hafsteinsson, innviðaráðuneyti


Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum og eftir atvikum drögum að breytingum á löggjöf til ráðherra eigi síðar en 31. október 2023.

Fyrr á þessu ári vakti athygli að Skeiða- og Gnúpverjahreppur stöðvaði frekari skipulagsvinnu vegna frekari virkjana Landsvirkjunar í sveitarfélaginu. Haraldur Þór Jónsson, oddviti sveitarfélagsins sagði að nær engar tekjur skiluðu sér til sveitarfélagsins og nærsveitarfélagsins af þeim virkjunum sem þegar eru til staðar. Hann sagði að Landsvirkjun greiddi um einn milljarð króna í fasteignagjöld af mannvirkjum virkjana í stað 16-20 milljarða króna sem eðlilegt væri.

Á síðasta ári varð 45 milljarða króna hagnaður af Landsvirkjun og greiðir fyrirtækið 20 milljarða króna í arð til ríkissjóðs.

Samtök orkusveitarfélaga hafa beitt sér fyrir ákjósanlegum leiðum „til innheimtu sanngjarnra skatta og auðlindarentu er að fela í sér auknar tekjur til sveitarfélaga sem verða fyrir áhrifum af orkuvinnslu.“ eins og segir á vefsíðu samtakanna. 

DEILA