Gufudalssveit: seinkar framkvæmdum?

Fram er komin á Alþingi fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni, alþm. um framgang framkvæmda í Gufudalssveit. Spyr hann annars vegar hvenær áætlað er að útboð vegna vegaframkvæmda í Gufudalssveit, nánar tiltekið þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar, fari fram og hins vegar hvenær er áætlað að framkvæmdir vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar hefjist. Fyrirspurnin er skrifleg til innviðaráðherra. Miðað er við í þingsköpum að svarað sé innan tveggja vikna.

Eftirgrennslan Bæjarins besta hefur ekki leitt fram skýr svör við því hvenær vænta megi þess að útboðin verði auglýst. Í svörum Vegagerðarinnar hefur áður komið fram að unnið er að útboði á fyllingum að brúnum tveimur og að brýrnar verði sjálfstæð útboð síðar.

Gert hefur verið ráð fyrir að vegagerðinni í Gufudalssveit verði lokið á árinu 2025 en samkvæmt heimildum Bæjarins besta eru komnar upp efasemdir um að það gangi eftir og líklegra talið að verklok verði ekki fyrr en 2026. Ekki fást skýr svör þegar um þetta er spurt og vísað er á tillögu að samgönguáætlun sem hefur verið kynnt í ríkisstjórn og verður gerð opinber á næstu dögum.

-k

Uppfært kl 13:44. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að útboð sé í undirbúningi og meira verður hægt að segja í næstu viku.

DEILA