Efling samfélags á Vestfjörðum: tillögur tilbúnar en kynningu frestað

Einar K. Guðfinnsson

Þriggja manna starfshópur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem skipaður var síðasta sumar er tilbúinn með skýrslu sína og tillögur. Hlutverk starfshópsins er að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum. Einkum er þar hugað að orkumálunum á Vestfjörðum.

Til stóð að kynna skýrslu starfshópsins og tillögur hans á morgun á Patreksfirði en því hefur verið frestað. Ástæðan er sú að Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra hyggst vera á fundinum en þarf að vera á morgun á ríkisstjórnarfundi. Fundinn verður annar tími síðar og miðað er við að kynningarfundurinn verði á Patreksfirði.

Einar K. Guðfinnsson, fyrrv. ráðherra er formaður starfshópsins og með honum eru Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð.

Einar K. sagði í samtali við Bæjarins besta að í orkumálum væri alvarleg staða uppi á Vestfjörðum. Auka þarf aflið um 80% fyrir 2030 og spurningin væri hvernig það væri gert. Fyrirsjáanlega væri orkuframleiðslan utan Vestfjarða minni en eftirspurn og varhugavert væri að búast við orku þaðan. Þá væri eftirtektarvert hversu hægt gengur að mjaka framkvæmdum áfram. Sem dæmi þá hafi Hvammsvirkjun verið í nýtingarflokki Rammaáætlunar síðan 2013 en eigu að síður væri nú, 10 árum síðar, ekkert farið að gerast.

Að sögn Einars er skýrslan tilbúin og samstaða í nefndinni um tillögur, sem hann fagnaði og taldi góðs viti.

DEILA