Bolungavík: lögreglan fjarlægði þjóðfánann

Fánar Sjómannadagsins í Bolungavík og auð fánastöng milli þeirra þar sem þjóðfáninn var.

Lögreglan á Vestfjörðum tók á laugardaginn niður þjóðfánann af flaggstöng við íþróttamiðstöðuna Árbæ og Grunnskóla Bolungavík og lagði hald á hann. Sitt hvoru megin við þjóðfánann var fáni Sjómannadagsins í Bolungavík. Beðið er svara lögreglunnar við fyrirspurn Bæjarins besta þar sem óskað er skýringa.

Í skýringum Stjórnarráðsins um notkun fánans segir að öllum sé heimilt að nota hinn almenna þjóðfána, enda sé farið að lögum og reglum, sem um hann gilda.

Þá segir í skýringum forsætisráðuneytisins að ekki skuli raða merkjum eða fánum sveitarfélaga, félaga eða fyrirtækja inn á milli þjóðfána. Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildum frá þjóðfánum. Ekki kemur fram hvar þessi fyrirmæli er að finna í fánalögum.

Svo virðist að litið sé á að fánar Sjómannadagsins í Bolungavík sitt hvoru megin við þjóðfánann séu óvirðing við hann.

DEILA