Birta: það er einhver kraftur í öllu hérna

Birta Bjargardóttir flutti til Þingeyrar haustið 2021 án þess að þekkja þar nokkurn mann, til að  taka við starfi Blábankastjóra, en Blábankinn er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð þeirra Dýrfirðinga. Nú er hins vegar leitað að nýjum bankastjóra þar sem Birta rær á önnur mið í haust.
„Eftir frábær tvö ár finn ég að ég vil einbeita mér meira að eigin verkefnum, ég hef verið að byggja upp fyrirtækið mitt meðfram starfinu og langar að sinna því meira. Eitt af því sem gerist ósjálfrátt í svona skapandi starfi og umhverfi er að þú finnur sjálf hjá þér þörf til að skapa og þróa hugmyndir þínar, svo mig langar að einbeita mér að stökum verkefnum og það er því kominn tími til að einhver annar taki við keflinu,“ segir Birta sem segir samfélagið á Þingeyri hafa tekið henni opnum örmum. „Þetta starf er þannig að óhjákvæmilega ertu strax í miklum samskiptum við fólkið á svæðinus, hvort sem það er vegna þess að það nýti sér þjónustuna í Blábankanum eða vegna þess að Blábankinn er í samstarfi við svo marga aðila.“

Birta hefur búið víða um heiminn og þótti ekki tiltökumál að flytja á Þingeyri. „Mér finnst vandræðilega skemmtilegt að kynnast nýjum stöðum og nýju fólki og hef búið t.d. í Suður-Ameríku og Suðaustur Asíu. Um tíma bjó ég í London og er í raun mikil stórborgarmanneskja en elska líka kyrrðina í þessari stórbrotnu náttúru. Ég meina, útsýnið sem blasir við mér á hverjum morgni er ekkert minna en stórkostlegt. Og þar sem Blábankinn sinnir allskonar verkefnum hef ég kynnst fullt af fólki, bæði af svæðinu og líka úti í heimi,“ bendir hún á en Blábankinn er þátttakandi í stóru neti stafrænna flakkara, fólks sem nýtir samvinnurými til að sinna starfi sínu hér og hvar um heiminn. Þá stendur Blábankinn árlega fyrir nýsköpunarhemlinum Startup Westfjords, og hann sækja frumkvöðlar allsstaðar að af landinu. „Þetta er svo fjölbreytt starf og hér á Þingeyri er margt spennandi í gangi, eins og víðar á Vestfjörðum, það er einhver kraftur í öllu hérna.“

Hún segir að arftaki hennar verði því alls ekki svikinn. „Það eru svo spennandi verkefni framundan og þetta er svo fjölbreytt starf, frjálst og skapandi. Enda er það undirstrikað í stefnu Blábankans að hann sé suðupottur sköpunar. Ég myndi segja að starfið henti fjölhæfri manneskju sem hugsar út fyrir rammann, hefur gaman af að kynnast nýju fólki og dvelja á nýjum stað þar sem hægt er að finna mikla kyrrð og ró. Staðsetning starfsins er frábær fyrir útivistarmanneskju og ekki síst fyrir fjölskyldufólk þar sem verið er að auglýsa fleiri störf hér á svæðinu, auðvelt er að sinna fjarvinnu héðan, samgöngurnar orðnar mun betri en áður fyrr og svo er þetta auðvitað dásamlegur staður til að vera með börn.“

Það er því greinilega ekki spurning að Birta mælir með þessu starfi fyrir áhugasöm, sjálf segist hún alls ekki alfarin frá Vestfjörðum. „Ég verð svolítið eins og fólkið sem notar samvinnurýmið í Blábankanum, mun dvelja erlendis í vetur en kem sennilega aftur með vorinu eins og farfuglarnir. Og ég get ekki ímyndað mér annað en að ég verði að minnsta kosti með hluta af öðrum fætinum hér áfram, annað kæmi mér á óvart.

Hvað skyldi svo standa upp úr eftir tveggja ára starf í Blábankanum? „Hvað það hefur verið frábært að vera hluti af þessu æðislega samfélagi, að stýra viðburði á borð við Startup Westfjords og nú síðast að skipuleggja átakið Heimsækjum Þingeyri,“ segir Birta en átakið var sett á laggirnar í fyrrasumar og verður áframhald á því í sumar. Hún er einmitt önnum kafin við að leggja síðustu hönd á kynningarefni fyrir dagskrána í sumar. „Það hefur verið mjög gaman að vinna að Heimsækjum Þingeyri, í samvinnu við fólkið í firðinum, og verður gaman að sjá það halda áfram.“

En að lokum verður að spyrja einnar mikilvægrar spurningar: Hver er fallegasti fjörðurinn á Vestfjörðum? „Ekki segja Bjössa vini mínum þetta en það er tvímælalaust Dýrafjörðurinn,“ segir Birta og hlær, en téður Bjössi er ættaður úr Arnarfirðinum góða. 

Útsýnið úr eldhúsglugganum.

DEILA