Enn hætta á fuglaflensu í farfuglum

Hringmáfur við höfnina á Suðureyri

Matvælastofnun telur að fuglaflensa hafi líklega ekki viðhaldist í íslenskum staðfuglum í vetur. Stofnunin hefur þess vegna lækkað viðbúnaðarstig úr stigi þrjú í stig tvö. Enn er talin vera töluverð hætta á að skæðar fuglaflensuveirur berist með farfuglum til landsins. Þess vegna gilda áfram hertar sóttvarnarráðstafanir sem m.a. fela í sér að alifuglar og aðrir fuglar í haldi skulu hafðir innanhúss eða í lokuðum gerðum undir þaki.

Frá því í október 2022 hefur verið áberandi fækkun á tilkynningum frá almenningi um fund á veikum og dauðum villtum fuglum. Fuglaflensa greindist ekki í þeim fáum sýnum sem hægt var að taka.

Matvælastofnun telur því að smit í villtum fuglum með skæðum fuglaflensuveirum hafi fjarað út í vetur þrátt fyrir að veirurnar hafi fundist síðastliðið haust í staðfuglum svo sem hröfnum, örnum og svartbökum. Í ljósi þessa er viðbúnaðarstig lækkað úr stigi þrjú í stig tvö.

Almenningur er beðinn um að tilkynna um dauða og veika villta fugla, nema ef augljóst er að þeir hafi drepist af öðrum orsökum en veikindum. 

DEILA