Þingeyri: fella niður gatnagerðargjöld

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að gatnagerðargjöld vegna Vallargöru 25 á þingeyri verði felld niður. Í minnisblaði verkefnastjóra sem lagt var fyrir bæjarráðið kemur fram að ekki þurfi að leggja í frekari gatnagerð vegna byggingar einbýlishúss við Vallargötu 25. Samkvæmt gjaldskrá má vænta að gatnagerðargjöld vegna byggingarinnar nemi um 3,8 milljónum króna.

Í rökstuðningi bæjarráðs segir að Þingeyri vera á svæði sem hefur sætt lítilli ásókn undanfarin ár til uppbyggingar, auk þess sem Þingeyri hefur verið undir merkjum Brothættra byggða undanfarin ár.

Í lögum um gatnagerðargjöld er heimild til þess að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í
sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði. Sambærileg heimild er svo í samþykkt Ísafjarðarbæjar um gatnagerðargjöld.

Síðastliðið haust samþykkti bæjarstjórn tillögu um sérstaka niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna ákveðinna lóða, skv. lista sviðsstjóra, við þegar byggðar götur í Ísafjarðarbæ, sem ekki þarf að leggja í frekari kostnað við gatnagerð og eru auglýstar eru á vef Ísafjarðarbæjar.

DEILA