Flateyri: snjóflóðavarnir ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun tilkynnti í gær að áframhaldandi efling ofanflóðavarna við Flateyri, Ísafjarðarbæ skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Ofanflóðasjóður tilkynnti í febrúar síðastliðinn um styrkingu varna sem kom til í kjölfar snjóflóðanna í janúar 2020. Heildarverktími er áætlaður 3 ár og stefnt að því að byrja á uppbyggingu keilna undan Innra-Bæjargili.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í uppbyggingu á þremur keiluröðum ofan við núverandi varnargarða. Heildarfjöldi keilna verður 27 og verða þær 10-11 m háar. Efla þarf varnarfleyg ofan Sólbakka og verður núverandi varnarfleygur efldur með landmótun og uppbyggingu á 5-16 m háum leiðigarði. Núverandi þvergarður verður hækkaður um 5 m og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu. Hafnarsvæðið verður varið með keilum ofan vegar. Til viðbótar verður reistur 5-7 m hár og brattur hafnargarður til þess að beina flóðstraum frá Skollahvilftargarði frá höfn. Flóðrás við Skollagarð verður hreinsuð, dýpkuð og víkkuð neðst við garðinn til að auka virka hæð leiðigarðsins og tryggja
óhindrað rennsli snjóflóða meðfram garðinum. Flóðrás meðfram Innra-Bæjargilsgarði var hreinsuð, dýpkuð og víkkuð haustið 2021. Áætluð heildar efnisþörf vegna framkvæmdanna er 300.000 m³.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Ísafjarðarbæjar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar og bárust umsagnir frá öllum nema Umhverfisstofnun.

Um framkvæmdina segir Skipulagsstofnun að um sé að ræða nokkuð umfangsmikla framkvæmd innan svæðis sem þegar hefur verið að mestu raskað vegna mannvirkjagerðar og er tilgangur framkvæmdarinnar að þessu sinni að standa að áframhaldandi styrkingu varnargarða við Flateyri með því markmiði að tryggja öryggi byggðar og hafnarsvæðis.

Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

DEILA