Ríkisendurskoðandi: greiðir ekki fasteignaskatt af veiðihlunnindum

Guðmundur B. Helgason, ríkisendurskoðandi og eigandi að jörðinni Leysingjastöðum í Hvammssveit greiðir ekki fasteignaskatt af veiðihlunnindum sem fylgja jörðinni vegna Laxár í Hvammssveit. Ástæðan er sú samkvæmt svörum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að veiðiréttindin eru ekki metin til fasteignamats. Hefur stofnunin ekki fengið arðskrá veiðifélags Laxár í Hvammssveit né ársreikninga þess en þessar upplýsingar þarf til þess að meta réttindin. Þeim er svo deilt út á jarðirnar eftir hlut þeirra skv. arðskránni. Á fasteignamat jarðarinnar er svo lagður fasteignaskattur, þar með talið á verðmæti veiðihlunnindanna.

Það er á höndum Fiskistofu að senda Húsnæðis- og mannvirkjastofnun arðskrána. Guðni M. Eiríksson sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs staðfestir að til er veiðifélag Laxár í Hvammssveit og samþykkt um það en að Fiskistofa hafi hvorki undir höndum ársreikninga veiðifélagsins né að Fiskistofa hafi fengið arðskrá senda frá veiðifélaginu til staðfestingar sem lög kveða á um að skuli gert. Aðspurður hvort Fiskistofa muni ganga eftir skilum arðskrár segir Guðni að Fiskistofa muni taka „við arðskrá þegar hún berst frá veiðifélaginu og metur hvort rétt hafi verið staðið að gerð hennar.“

Fiskiræktaráætlun og nýtingaráætlun fyrir ána hafa verið sendar Fiskistofu og á Guðni von á að þær verði afgreiddar fyrir lok marsmánaðar. Tilgangur veiðifélagsins er útleiga Laxár, fiskirækt og auka arð af henni.

Í veiðifélaginu eru eigendur að þeim jörðum sem land eiga að vatnasvæði árinnar og eru taldar upp 8 jarðir, þar með taldir Leysingjastaðir.

Aðalfundir fyrir veiðifélagið fyrir árin 2019 og 2020 hafa verið haldnir á Leysingjastöðum og meðal annars lagðir fram ársreikningar og þeir afgreiddir. Formaður stjórnar er Helga Jóna Benediktsdóttir eiginkona Guðmundar B. Helgasonar, ríkisendurskoðanda. Þau hafa átt jörðina í áratugi.

Í síðasta mánuði voru fluttar fréttir af því í öllum helstu fjölmiðlum landsins að Jón Hákon Björnsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð ætti óskráð sumarhús í sveitarfélaginu og hefði ekki greitt af því lögboðin fasteignagjöld. Bæjarstjórinn sagði upp störfum og er hættur en sagði ástæðuna fyrir uppsögninni aðra.

DEILA