Ísafjarðarbær: lagt til að taka við 40 flóttamönnum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að Ísafjarðarbær taki á móti allt að 40 einstaklingum í samræmdri móttöku flóttafólks á tímabilinu 1. febrúar 2023 til 31. janúar 2024.

Fyrir bæjarráð var lagt minnisblað sviðsstjóra velferðarsviðs þar sem þetta var lagt til. Fólkið verði búsett í Ísafjarðarbæ og í Súðavík.

Gert er ráð fyrir að gerður verði þjónustusamningur milli Ísafjarðarbæjar, Fjölmenningarseturs og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis þar sem að lágmarki 30 manns fái þjónustu og að hámarki 40 manns.

Fram kemur í minnisblaðinu að frá mars 2022 hafi Ísafjarðarbær og Súðavík tekið á móti og veitt þjónustu tæplega 30 flóttamönnum.

Ekki er gert ráð fyrir kostnaði vegna þessa í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar en mögulegum kostnaði verði mætt með framlögum frá Félags- og velferðarráðuneytinu.

DEILA