Fornleifauppgröftur í miðbæ Ísafjarðar

Föstudaginn 31. mars mun Haukur Sigurðsson flytja erindið „Fornleifauppgröftur í miðbæ Ísafjarðar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða.

Húsið hennar Dísu á bökkunum, Albertshús, hefur verið fastur punktur í götumynd Ísfirðinga í tæp 130 ár.

Árið 2016 tóku Vaida og Haukur, sem er barnabarnabarnabarn Dísu, við húsinu og fóru að huga að endurbótum. Það reyndist þó vandasamt verk, því fjársjóðurinn sem leyndist þar innandyra reyndist umfangsmeiri en gengur og gerist, og þá varð að fara varlega.

Í Vísindaporti mun Haukur segja stuttlega frá sögu hússins og gersemunum sem fundust inni í veggjum. Þá mun hann segja frá því hvernig tveir einstaklingar með tuttugu þumalputta endurbyggðu hús sem verkfræðingar og smiðir höfðu dæmt ónýtt og óviðgerðarhæft.

Haukur Sigurðsson er ísfirskur Bolvíkingur með MA gráðu í sjónrænni mannfræði frá Háskólanum í Tromsö. Hann starfar sjálfstætt við myndatökur ýmis konar og markaðsmál með höfuðstöðvar í gömlu Skóbúð Leós. Giftur Vaidu Braziunaite og saman eiga þau þá Kára og Bjart.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð.