Halldór Þorgeirsson, formaður Loftlagsráðs, leit inn í kennslustund í námskeiðinu Stjórnun verndaðra hafsvæða í Háskólasetri Vestfjarða í gæmorgun og hélt óformlegt erindi fyrir nemendur og starfsfólk. Ísfirðingurinn Halldór Þorgeirsson var á Ísafirði vegna Fagráðstefnu Skógræktar sem haldin var í Edinborgarhúsinu í gær, og notaði tækifærið til að heimsækja Háskólasetur Vestfjarða.
Halldór var skipaður formaður Loftslagsráðs af þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, árið 2018 en áður gegndi hann stöðu yfirmanns stefnumörkunar hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna í Bonn.
Frá þessu er greint á vefsíðu Háskólasetursins.
Nemendurnir veltu fyrir sér hvers vegna það hefði tekið heiminn svona langan tíma að bregðast við vandamálinu, til dæmis að draga úr losun koldíoxíðs, og eitt af því sem Halldór nefndi var að afleiðingarnar dreifðust ekki jafnt um plánetuna. „Þau sem verða verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingum er fólkið sem hefur kannski aldrei heyrt um þær, eru ekki að nota bíla og hafa ekki átt þátt í að skapa vandann, en myndu njóta góðs af aðgerðum landanna þar sem losunin er mikil.“
Það sé ástæðan fyrir mikilvægi Sameinuðu þjóðanna og starfi þeirra til að aðstoða þjóðir við „að sjá heildarmyndina og tengja punktana“ þegar kemur að því að skilja vistkerfi heimsins.