Stækkun Úlfsárvirkjunar ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að fyrirhuguð stækkun Úlfsárvirkjunar í Skutulsfirði þurfi ekki að fara í umhverfismat. Ákvörðunin er kæranleg til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og er kærufrestur til 10. júní 2024.

Úlfsárvirkjun er sírennslisvirkjun við Úlfsá í Dagverðardal og var gangsett í maí 2019. Farvegurinn er
stíflaður í efnisnámu (E8) fyrir inntak án uppistöðulóns. Aðveitulögn er frá inntaki að stöðvarhúsi
og frárennsli er svo frá stöðvarhúsi aftur út í Úlfsá. Engin veglagning var vegna framkvæmdanna og
fallpípa frá vatnsinntaki að stöðvarhúsi var alfarið grafin í vegkant gamla þjóðvegarins, nema þar
sem hún sveigir inn í efnisnámuna í átt að inntaki og að stöðvarhúsi. Virkjunin er á svæði sem þegar
var raskað. Farvegur Úlfsár er með skertu rennsli frá inntaki að frárennsli virkjunar á u.þ.b. 2,4 km
kafla.
Fyrirhuguð framkvæmd felst í aflaukningu Úlfsárvirkjunar en áformað er að auka aflgetu úr 200 kW
í 460 kW með breyttum vélbúnaði. Vatnsnotkun fyrir aflaukningu er um 0,120 m3 /sek.
Hámarksvatnsnotkun eftir aflaukningu verður 0,280 m3 /sek við full afköst. Aukið afl virkjunar er
sagt fengið með nýtingu umframvatns þegar aðstæður leyfa, t.d. þegar yfirborðsvatn og snjóbráð
er til staðar.

Aflaukningin kallar ekki á neinar framkvæmdir á svæðinu, engar breytingar á inntaki, fallpípu né flutningsmannvirkjum.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

DEILA