Efnaleifar í eldisfiski: langt undir viðmiðunarmörkum

Frantz og Collins í Silfrinu 19. mars sl.

Matvælastofnun annast eftirlit með matvælaframleiðslu og fylgist með efnaleifum í framleiðslunni. Á síðasta ári voru tekin 1.794 sýni og mældar efnaleifar af ýmsum tegundum. Vel er fylgst með eldisfiski og voru tekin 540 sýni úr honum á síðasta ári. Meðal annars eru mæld 15 þrávirk lífrænu klórsambönd í eldisfiski og fylgst með þeim, þar af eru 7 þeirra af PCB gerð. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun voru efnaleifar í þeim langt undir öllum viðmiðunarmörkum. Þá hefur innihald slíkra efna í villtum laxi verið hærra en í eldislaxi þegar samanburður hefur farið fram.

Strangar kröfur gilda um lyfjanotkun í matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem Ísland hefur innleitt og fylgir.

Úr skýrslu Matvælastofnunar fyrir 2022.

Í þættinum Silfrið á RUV sunnudaginn 19. mars var viðtal við Frantz og Collins,höfunda bókar um laxeldi í sjó, Salmon Wars, og fullyrtu þau að uppsöfnuð eiturefni í eldislaxi væru hættuleg heilsu fólks, svo sem þungaðra kvenna og barna vegna efna á borð við PCB, krabbameinsvaldandi fjölklóraða bífenýla. Byggja þau fullyrðingar sínar á rannsókn frá 2004 sem birt var í Science Magazine.

Af svörum Matvælastofnunar er ljóst að engin stoð er fyrir þessum staðhæfingum varðandi sjókvíaeldi á Íslandi.

Áður hefur komið fram á vef Bæjarins besta að engin sýklalyfjanotkun er í laxeldi í sjó hér á landi.

Í minnisblaði frá embætti yfirdýralæknis , sem þá annaðist eftirlit með matvælaframleiðslu, og var tekið saman árið 2004 í tilefni af umræddri rannsókn segir að

„Nýlegar rannsóknir á íslenskum eldisfiski, sem Yfirdýralæknisembættið stóð fyrir í samstarfi við Rannsóknastofnun sjávarútvegsins sýnir, að bæði eldislax og silungur innihalda mjög lítið af þrávirkum efnum.“

Þá er vísað til alþjóða heilbrigðismálstofnunarinnar „WHO [sem] hefur sett áhættumat vegna dioxín og díoxín virkra PCB efna. Þolmörkin eru öryggismörk fyrir viðkvæmustu einstaklinganna, þ.e. fyrir fóstur í móðurkvið og börn á brjósti. Þolmörk WHO eru 14 pg WHO-TEQ/kg líkamsþyngdar sem þýðir að 70 kg einstaklingur getur borðað 130 g af íslenskum eldislaxi eða silung á dag alla daga vikunnar. Það má sem sagt eta eldislax eða silung annan hvern dag án þess að fara yfir öryggismörk WHO.“

DEILA