Samþykkt að hefja formlegar sameiningarviðræður sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti á þriðjudaginn samhljóða að skipa fulltrúa í samstarfsnefnd, þ.e. þrír frá hvoru sveitarfélagi, sem kanna skal möguleika á sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga.
Stefnt skal að því að samstarfsnefndin skili áliti sínu til sveitarstjórna í maí næstkomandi með það fyrir augum að formleg kynning tillögunnar hefjist í ágúst og að kjördagur verði fyrir lok árs 2023. Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma.

Sveitarstjórnin samþykkti með fjórum atkvæðum að skipa Jenný Láru Magnadóttur, Jóhann Örn Hreiðarsson og Lilju Magnúsdóttur til setu fyrir sína hönd í samstarfsnefnd. Guðlaugur Jónsson sat hjá.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í gær fyrir sitt leyti tillöguna og tilnefndi Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, Jón Árnason og Guðrúnu Eggertsdóttur sem fulltrúa Vesturbyggðar í samstarfsnefndina.