Bíldudalur: fær bærinn greiddar ofanflóðavarnir?

Bíldudalsskóli.

Vesturbyggð sendi Ofanflóðasjóði erindi í byrjun desember sl. um ofanflóðavarnir á Bíldudal fyrir ofan Grunnskólann. Svo háttar til að mygla hefur greinst í húsnæðinu og varð að flytja allt skólahald í vetur í annað húsnæði.

Eru forsvarsmenn Ofanflóðasjóðs inntir eftir því hvort Ofanflóðasjóður væri tilbúinn til að greiða Vesturbyggð þá fjárhæð sem það myndi kosta að byggja sérstakan varnargarð til að verja Bíldudalskóla, ákveði sveitarfélagið að hætta noktun húsnæðisins fyrir skólastarfsemi á Bíldudal og flytji starfsemina annað.

Byggingin yrði þá ekki í notkun þegar ofanflóðahætta væri til staðar.


Óskað er eftir afstöðu sjóðsins áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hvort skólabyggingin verði lagfærð eða
fundnar verði aðrar leiðir til að stunda skólahald.

Fordæmi eru fyrir því að Ofanflóðasjóður hafi greitt fyrir uppkaup húsnæðis, sem hafa ýmist verið tekin úr notkun eða aðeins verið í notkun á þeim tíma ársins þegar ekki er von á ofanflóðum. Sér þá sveitarfélag um kaupin og verður eigandi eignanna en Ofanflóðasjóður fjármagnar þau að mestu eða allt að 90%. Auk þess er sjóðnum heimilt að lána sveitarfélaginu fyrir sínum hlut til 15 ára.

DEILA