ÞAÐ ER EINFALDARA AÐ TALA ÍSLENSKU Á ÍSAFIRÐI EN Í REYKJAVÍK

Dr. Matthias Kokorsch er einn margra starfsmanna Háskólaseturs Vestfjarða sem ekki fæddist á Íslandi. Matthias er þýskur og hefur faglega umsjón með meistaranámi í sjávarbyggðafræði. Hann hefur því augljóslega íslensku ekki að móðurmáli en hefur engu að síður náð mjög góðum tökum á málinu. Íslenskuvænt samfélag náði tali af Matthiasi og spjallaði við hann um tileinkun íslenskunar og fleira því tengt.

Í þessu samhengi má benda á áþekk viðtöl sem birtust í sumar sem leið:

BEST AÐ TALA EKKI ENSKU

EKKERT AUÐVELT VIÐ ÍSLENSKU NEMA KANNSKI ORÐIÐ JÆJA

Matthias kom til Íslands í fyrsta sinn árið 2010 og þá sem skiptinemi. Tveim árum seinna kom hann á ný til landsins til að stunda rannsóknir við Háskóla Íslands. Árið 2019 fluttist hann síðan til Ísafjarðar og hóf störf við Háskólasetur Vestfjarða. Aðspurður hvort einhver náttúrurómantík hafi ráðið staðarvalinu svarar hann því játandi en segir jafnframt að valið hafi staðið milli Reykjavíkur og Ísafjarðar þegar hann hugsaði um að flytja til Íslands á sínum tíma.

Spurður út í hvenær hann byrjaði að læra íslensku segir hann erfitt að svara því. Árið 2010 hafi hann lært smá íslensku sér til gamans: „ … til að vita eitthvað smá, til að skilja hvað er í gangi, fá smá tilfinningu fyrir tungumálinu en ég myndi ekki segja að ég hafi lært íslensku.“

Árið 2012 tekur hann námskeið í Reykjavík en segir að það hafi verið mjög erfitt að einbeita sér að íslensku þá. „Það var alltaf svo einfalt að skipta yfir á ensku.“ Mest allt sem hann las og tengdist rannsóknum hans við Háskóla Íslands var á ensku og flestar samræður fóru fram á ensku. „Þess vegna myndi ég segja að ég byrja að læra og tala íslensku af alvöru árið 2019.“ Það var nefnilega aldrei planið að búa á Íslandi. 

En áætlanir eiga það til að breytast og nú er annað upp á teningnum, Matthias hefur í hyggju að búa á Íslandi, á Ísafirði, og hefur meira að segja, ásamt Piu konu sinni, fest kaup á íbúð á Ísafirði. „Nú er þetta ekki spurning, núna er tíminn til að læra íslensku.“

Spurningunni „Hvað er erfiðast við að læra íslensku“ svarar Matthias með málfræði. „Mér finnst erfiðast að nota endingar, forsetningar og greini rétt.“ Stundum vefjast tölur líka fyrir honum, þær tölur sem lúta fallbeygingu. Það hjálpar honum þó mikið hve fallegt honum málið sem og að pæla í orðsifjafræði. Þar sér hann spennandi tengingar við þýsku og hvernig að vissu leyti megi horfa til eldri þýsku og jafnvel finna orð sem rekja megi langt aftur í tímann sem og finna á þeim sameiginlegan germanskan flöt.

Hvað aðferð hans við máltileinkun varðar finnst honum best að fást við eitthvað sem hann hefur áhuga á. Byrjaði hann því á fótbolta og handbolta. „Fyrsta orðið sem ég lærði var frábært, allt var frábært í íslenskum handbolta.“ Þetta var þegar EM í handbolta átti sér stað árið 2010 og íþróttaþulurinn talaði stöðugt um að allt væri frábært. Íslenska karlaliðið í handbolta var mjög framarlega á þessu móti.

Þegar innt er nánar eftir málfræðinni segir hann að margir séu hræddir við málfræðina og hugsi að þeir muni aldrei læra hana og séu þess vegna e.t.v. hræddir við að tala íslensku. Við því segir hann að aðalmálið sé að nota, nota og nota málið. Fyrst megi tengja það sínu áhugasviði og síðan víkka orðaforðann út frá því. Mikilvægt sé að vera óhræddur við að gera mistök. Svo megi vel nota málið í nafnhætti til að byrja með. „Fyrst talar maður kannski eins og leikskólakrakki, en síðan kannski eins og grunnskólakrakki og eftir það eins og menntaskólakrakki […] en maður verður allavega að byrja einhvers staðar og þú þarft ekki að skammast þín fyrir mistök þegar þú ert að læra og æfa svona erfitt tungumál.“

Því fólki sem segist vilja læra íslensku en ber fyrir sig tímaleysi bendir hann á að það ætti kannski að prófa að slökkva á snjallsímunum.

Þegar talið berst að því hvernig sé að læra íslensku á Ísafirði segir hann staðinn mjög góðan, að Ísfirðingar séu almennt miklu þolinmóðari en Reykvíkingar. „Ísafjörður er hvorki of lítill né of stór til að læra. Ég held það sé kannski erfitt að læra í smáþorpi. Hér hefur fólk reynslu af því að tala við útlendinga. Fólk hér skiptir ekki yfir á ensku strax sem mér finnst mjög gott. Það er ekki þannig í Reykjavík. Freistingin að tala ensku er svo kannski ekki eins stór hér og í Reykjavík. Það er einfaldara að búa í Reykjavík og tala ekki íslensku. Hér er kannski meiri pressa að tala íslensku ef þú vilt vera hluti af samfélaginu.“ 

Það sem helst mætti svo bæta í þessu samhengi er, að hans mati, að sumir mættu tala hægar en auk þess þyrfti að auka fjölbreytni og framboð á íslenskukennslu „af því tungumálið er lykill að samfélaginu og menningu. Þar að auki kannski fleiri sérhæfðari námskeið með sérhæfðum orðaforða.“

 „Svo væri tungumálasamtvinning af hinu góða eða einhvers konar tungumálatinder.“ Hér á Matthias við að hægt væri að hittast og læra og æfa mál hver annars. 

„Er ekki einhver hér á Ísafirði sem vill læra þýsku eða bæta sig í henni?“

Við þökkum Matthiasi kærlega fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar á íslenskuvegferð sinni.

Starfshópur Íslenskuvæns samfélags 

DEILA