Icelandic courses: ekkert auðvelt við íslensku nema kannski orðið jæja

Axelle Jean frá Frakklandi.

Íslenskuvænt samfélag heldur áfram að ræða lítillega við fólk sem lærir og æfir íslensku á Vestfjörðum. Að þessu sinni var rætt við Axelle Jean frá Frakklandi. Hún hefur náð góðum tökum á íslensku á frekar stuttum tíma.

Vegferð hennar hvað íslensku varðar hófst árið 2018 í Frakklandi hvar hún hóf nám í íslensku við Háskóla þar í landi. Fyrsta skiptið á Íslandi var aftur á móti árið 2019 þegar hún tók þátt í sumarnámskeiði í íslensku við Háskóla íslands. Síðan þá hefur hún komið fjórum sinnum til landsins og er nú búsett á Ísafirði og vinnur fyrir Sjóferðir sem leiðsögumaður. Hún lóðsar túrista um Hesteyri og Vigur í sumar. Hún vinnur einnig fyrir RIFF kvikmyndahátíðina.

Við spjölluðum lítillega við hana um íslenskutileinkunn hennar.

Aðalástæðan fyrir því að hún leggur rækt við íslensku er að málið er óvenjulegt. Það er ekki eins og hver sem er leggi stund á íslensku. Það má og efast um hagnýtan tilgang þess þótt nú ætti íslenskunámið vissulega að koma í góðar þarfir hjá Axelle.

„Mér finnst skemmtilegt að læra óvenjuleg tungumál. Ég lærði líka ungversku. Þetta er eins konar leikur fyrir mér. Ég hef líka gaman af tungumálum sem hafa ekki breyst svo mikið.“

Hvað henni finnst erfiðast við að læra málið nefnir hún fyrst og fremst málfræðina. Hún nefnir einnig sem dæmi um erfiðleika við að læra málið að „fyrir to have eru þrír mismunandi möguleikar á íslensku, eiga, hafa og vera með. Það finnst mér flókið.“

Hún er og á því að eiginlega sé ekkert auðvelt við að læra íslensku nema þá kannski orðið jæja „sem nota má undir margvíslegum kringumstæðum.“

Varðandi bestu aðferðina við að læra málið segir hún að hún vinni með skipstjóra einum hjá Sjóferðum sem tali ekki ensku en tali samt mikið og það á íslensku. Axelle segir að það hjálpi henni að læra málið. „Þegar hann sér að ég skil ekki reynir hann aftur og aftur og aftur. Það hjálpar mér mjög mikið við að æfa mig. Núna finnst mér að ég skilji betur en t.d. í apríl.“

Axelle segist einnig lesa mikið og er, um þessar mundir, að lesa bókina Árstíðir eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur. Er um að ræða suttar sögur sem fyrst og fremst eru ætlaðar fólki sem lærir íslensku.

Hún er á því að gott sé að læra íslensku á Ísafirði. „Ég veit ekki af hverju en hérna svarar fólk mér venjulega alltaf á íslensku en ekki í Reykjavík. Kannski er minna af útlendingum hér og kannski tala útlendingar hér líka íslensku. Það er mjög gott að tala íslensku hér.“

Hvað ámælisvert gæti verið er að ekki er boðið upp á kvöldnámskeið í íslensku yfir sumarið. Hún er á að það væri af hinu góða að bjóða uppá slíkt.

Varðandi ást á Íslandi segir hún að kynni af Íslandi hafi eiginlega komið af tilviljun þar sem hún varð að læra annað tungumál í háskólanum. Og þar sem byggingin hvar íslenska var kennd er nálægt staðnum þar sem hún bjó var það praktískt. Hún gat sofið lengur á morgnana. Þar af leiðandi byrjaði hrifningin á Íslandi á annan máta en hjá mörgum. „Ég byrjaði að elska Ísland eftir að ég byrjaði að læra tungumálið. Fyrst tungumálið, svo sagan, svo landið.“

Þegar talið berst að því hvað mætti bæta við íslenskukennslu eða það að læra íslensku bendir hún á að Íslendingar og útlendingar eigi ekki nógu oft í samneyti og því blandist hóparnir ekki nóg saman en blöndun gæti verið af hinu góða þegar kemur að því að læra málið. „Þetta er þó ekki vandamál á Ísafirði“, segir hún jafnframt.

Og það eru góð lokaorð.

Starfshópur Íslenskuvæns samfélags

Við minnum svo einnig á framlínunámskeið á vegum Íslenskuvæns samfélags sem haldið verður í Fræðslumiðstöð Vestfjarða 19. júlí næstkomandi frá klukkan 09:30 til 11:00. Það er tilvalið fyrir þá sem kunna ekki mikið fyrir sér en þurfa að nota allavega smá íslensku við vinnu sína. Það er einnig mikilvægt fyrir þá sem vilja tala íslensku þegar þeir t.d. panta eitthvað á matsölustað.

DEILA