Best að tala ekki ensku!

Vegna átaksins Íslenskuvænt samfélag ákvað starfshópur átaksins að tala við fólk sem lærir íslensku eða æfir sig í íslensku á degi hverjum. Við viljum fyrst og fremst heyra hvernig þeim finnst best að tileinka sér málið. Fleiri slík viðtöl eru áformuð en fyrsta viðtalið er við  Abdullah Al Bdiwi.

Mörgum Ísfirðingum og nærsveitungum er Abdullah Al Bdiwi að góðu kunnur. Hann vinnur hjá Kúrdó Kebab á Ísafirði og er þar allt í öllu. Margir hafa eflaust orðið þess áskynja að hann talar alveg ágæta íslensku og er óhræddur við að tala við fólk á íslensku auk þess sem hann biður fólk vinsamlega um að tala ekki við sig á ensku. Hann er einnig óhræddur við að spyrja fólk út í orð og setningar sem hann skilur ekki.

Abdullah er frá Sýrlandi en kom til Íslands 6. mars árið 2018 frá Jórdaníu. Við komuna þurfti hann auðvitað, eins og margur sem til landsins flytur, að læra íslensku til að fóta sig í nýju landi. Það er óhætt að segja að það hafi tekist vel.

Aðspurður um hve langan tíma það hafi tekið hann að ná sómasamlegum tökum á málinu segir hann að það hafi tekið um sex mánuði þótt vissulega sé hann enn að leitast við að bæta sig.

Eftir einn mánuð á Íslandi byrjaði hann að læra íslensku í skóla og þar var margt fólk sem hjálpaði honum að læra málið. Mest hjálpaði samt að ekki var notuð enska. „Ef þú notar ekki ensku lærir þú íslensku mjög vel“, segir Abdullah.

Þess má og geta að hann talaði ekki ensku að neinu ráði þegar hann kom til Íslands og það hjálpaði einnig við að ná tökum á málinu.

Aðspurður um hvað væri erfitt við íslensku minntist hann á að löng orð væru oft erfið, orð eins og t.d. Eyjafjallajökull. Fyrst fannst honum erfitt að læra löng orð og skilja þau. „Oft er betra að taka löng orð og langar setningar og stytta, þá skilur maður betur“.

Hvað uppáhalds frasa eða setningar varðar heldur hann upp á „góðan og blessaðan daginn“ og „hvernig hefur þú það“?

Hvað aðferð við að læra íslensku áhrærir er hann á því að best sé að læra íslensku í skóla en ekki síður og tala við fólkið. „Og svo er mjög mikilvægt að nota ekki ensku. Aldrei. Maður þarf að prófa sig áfram, nota það sem maður kann og ef maður skilur ekki þá bara spyr maður. Þegar þú talar við fólk þá bara spyrð þú og segir hvað þýðir þetta? T.d. getur þú spurt hvað þýðir impossible á íslensku? Þú spyrð um orðið á íslensku og notar það svo.“

Honum finnst Ísafjörður mjög góður staður til að læra íslensku. „Það er mjög gott að læra íslensku á Ísafirði“. Litast það hugsanlega af því að fólk hér er viljugra til að gefa sér þann tíma sem þarf til að hjálpa og útskýra.

Hann mælir og með því að  byrja á einföldum bókum fyrir lítil börn og lesa þær en jafnframt að nota ávallt íslensku og „biðja fólk um að endurtaka og tala hægar og skýrar“, sé þar þörf á.

Það er því ljóst að Abdullah lærði málið fyrst og fremst með því að nota það stöðugt auk þess sem það hjálpaði mest að tala ekki ensku. Það er kannski eitthvað sem taka mætti til sín.

Starfshópur Íslenskuvæns samfélags

DEILA