ÁFRAM ÍSLENSKA, ÁFRAM ÍSLENSKUVÆNT SAMFÉLAG

Átakið Íslenskuvænt samfélag fór fram á tímabilinu 27. maí til 16. nóvember 2022. Viðbrögð við því hafa að lang mestu leyti verið jákvæð og flestir sem leitað var til sýndu áhuga á framtakinu og vildu vera með.

Fókus átaksins var á Ísafjarðarbæ og Vestfirði. Markhópur þess var aðallega fólk sem hefur íslensku að móðurmáli og þeir sem náð hafa góðum tökum á tungumálinu og eru búsettir á svæðinu. Gengið var út frá spurningunni: „Hvað get ég gert til að hjálpa við máltileinkun?“ Raunar var fullt heiti átaksins Íslenskuvænt samfélag – við erum öll almannakennarar. Gegnsætt heiti sem segir meira en mörg orð.

Í sem fæstum orðum var markmiðið að stuðla að vitundarvakningu, að fá fólk til að hugsa um málefnið og hvað það geti gert til að hjálpa íslenskunemendum. Íslenskunemendum sem náttúrlega, að sjálfsögðu og auðvitað þurfa að æfa sig í íslensku til að geta orðið betri í málinu. Lykilatriði er að nota íslensku. Lykilatriði er að hafa möguleikann á því að nota íslensku. ENGINN lærir íslensku sé enska ALLTAF notuð.

Til að hreyfa við umræðunni var haldin málstofa og hengd voru upp veggspjöld. Þá voru skrifaðar greinar og viðtöl tekin sem birt voru á Bæjarins besta og vefsíðu Háskólaseturs. Einnig var hreinlega gengið á milli staða í Ísafjarðarbæ og talað við fólk augliti til augliti til auglitis. Símtæknin var líka notuð. Hófleg stærð bæjarins gerði það auðveldara að kynna málið fyrir fólki, gerði það auðveldara að ná til fólks til að gera samfélagið sem íslenskuvænast og fá það til að vera með.

Samhliða var reynt var að búa til tækifæri fyrir íslenskunemendur til að nota málið. Tækifærin fólu mikið í sér blöndun málhafa og nemenda, að nemendur hefðu tækifæri til að nota tungumálið á þeirra stigi. Hér má nefna spilakvöld, textasmiðju, talskipti, hrað-íslensku og gönguferð á íslensku í samstarfi við Ferðafélag Ísafjarðar til að nefna eitthvað. Mikið var í boði og allt að kostnaðarlausu, ókeypis. Vinna við skipulagningu var unnin í sjálfboðavinnu og sá kostnaður sem hlaust af var greiddur af Háskólasetri Vestfjarða.

Mynd þessi var tekin á Hrað-íslensku sem lýtur sömu lögmálum og speed dating nema hvað hér er áherslan á að æfa sig í íslensku.

Og svo er gaman að minnast á bolina sem gerðir voru og enn má kaupa. Þeir voru á vissan hátt til höfuðs bolunum með áletruninni ég tala ekki íslensku. Þessir nýju bolir eru auðvitað tilvalin jólagjöf og hægt að fá þá í Háskólasetri Vestfjarða, Suðurgötu 12.

Einnig var svo staðið að svokölluðu framlínunámskeiði í Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem erlendu fólki í þjónustustörfum, sem kann ekki íslensku eða þarf að æfa sig betur, bauðst að fara yfir nauðsynleg atriði til að geta veitt þjónustu á íslensku. Það er nefnilega bagalegt og skrýtið að íslenskunemendur sem vilja panta kaffi á kaffihúsi, kaupa brauð í bakaríi eða panta mat á veitingahúsi þurfi að gera það á ensku. Ekki verða þeir betri í íslensku við það. Svo tala ekki allir ensku né vilja allir tala ensku. Undirritaður er t.d. einn af þeim sem talar ekki ensku.

Ísafjarðarbær -þær stofnanir, verslanir og veitingahús sem þar má finna- er að vísu mjög framarlega í þessum efnum. Fullyrða má að oft, vonandi oftast, standi þjónusta á íslensku til boða. En betur má ef duga skal og verður þess vegna aftur staðið að framlínunámskeiði í janúar í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Tímasetning verður tilkynnt síðar en hvetja má vinnuveitendur, þar sem þetta á við, að hafa þetta bak við eyrað. Til að fá nánari upplýsingar má skrifa islenska(hja)uw.is eða hringja í 8920799.

Viðburðir Íslenskuvæns samfélags tókust misvel upp og voru misvel sóttir

eins og gengur og gerist. Er margt sem læra má af því sem miður fór. Það er enda stefnan að halda áfram með átakið á árinu 2023 og gera enn betur, skapa enn fleiri tækifæri til að æfa notkun íslensku. Dagskrá verður kynnt á komandi ári.

Aðalmarkmið átaksins tókst þó. Tileinkun íslensku er komið sterkar inn í umræðuna sem og það stóra atriði að ýta íslenskunni ofar í virðingarstiganum þannig að íslenskan verði fyrsta málið sem notað er uns svo annað kemur í ljós. Kannski má bera þetta saman við skiltin í Leifsstöð sem staðið hefur styr um. Enska hefur verið fyrir ofan íslenskuna á skiltum flugstöðvarinnar en nú stendur til að breyta því. Stór hluti þessa alls felst í hugarfari og vitundarvakningu.

Átakið vakti nokkra athygli innan Vestfjarða, enda var fókusinn á það svæði, en einnig annars staðar á Íslandi. Fékk átakið nokkuð af tölvupóstum og fyrirspurnum frá fólki sem vildi fræðast um átakið. Rataði það líka eitthvað í fjölmiðla. Hæst bar þó viðurkenning Íslenskrar málnefndar sem Háskólasetur Vestfjarða hlaut fyrir átakið 29. september.

Það er vonandi að vitundarvakningin sé komin til að vera, að hægt verði að halda áfram með átakið svo vel sé og að vegur íslenskunar vaxi því samhliða hjá öllum þeim sem nota málið.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs og meðlimur í starfshópi Íslenskuvæns samfélags

„“

DEILA