Veggspjöld Íslenskuvæns samfélags. Viltu leggja þitt lóð á vogarskálina?

Einn liður í átakinu Íslenskuvænt samfélag er að fá að hengja upp veggspjöld hjá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu (er einkum átt við Ísafjarðarbæ en auðvitað er öllum velkomið að vera með). Auðvitað er slíkt einvörðungu gert með góðfúslegu leyfi forsvarsmanna og kvenna sem vilja veita átakinu lið og auka um leið meðvitund; hvað það felur í sér að læra annað tungumál.

Það að hafa slíkt veggspjald uppi hjá sér felur ekki í sér neina vinnu nema þá að skuldbinda sig til að tala íslensku við þá sem það vilja. Er hér einkum átt við þá sem læra og æfa málið. Felur þetta einnig í sér að leitast sé við að nota, þegar við á, einfalda íslensku, tala hægt og skýrt, endurorða og endurtaka. Viðkomandi er þá sumpart í hlutverki almannakennara. Einnig gæti auðvitað farið svo að viðkomandi sé sjálfur að læra og æfa málið og það er auðvitað bara af hinu góða enda þarf íslenskan ekki að vera fullkomin.

Veggspjaldið er auk þessa skreytt QR-kóða. Gegnum hann er hægt að hlaða niður frösum sem ættu að geta hjálpað til við einföld samskipti. Einnig er þar hljóðskrá að finna. Slíkt gæti og verið sniðugt fyrir erlenda ferðamenn sem vilja segja „góðan daginn“ í staðinn fyrir „good morning“. Gæti verið gaman að benda þeim á að hlaða niður skránum.

Nú þegar hafa nokkrir staðir á Ísafirði tekið við slíku veggspjaldi og hengt upp hjá sér. Vonandi koma og margir aðrir staðir til með að bætast í hópinn.

Sé áhugi á að vera með má hafa samband í gegnum netfangið islenska(hjá)uw.is eða í gegnum símanúmerið 8920799. Við rennum við, látum ykkur veggspjald í té og útskýrum hugmyndafræðina, sé þess óskað, á bak við átakið. Og það með glöðu geði.

-Atburðir og námskeið á vegum átaksins verða svo auglýst sér.

Íslenskuvænt samfélag.

Háskólasetri Vestfjarða

DEILA