Sameining Arnarlax og Arctic Fish líklega úr sögunni

Kvíar Arctic Fish í Dýrafirði.

SalMar seldi í dag hlut sinn í Arctic Fish, sem er 51,28%, til Mowi í Noregi, en það er stærsta laxeldisfyrirtæki í heiminum og framleiðir um 400 þúsund tonn á ári. Söluverðið er 115 NOK á hlut eða 1,9 milljarðar norskra króna eða um 25 milljarða íslenskra króna.

Við þessa sölu verður sú breyting að Arnarlax og Arctic Fish verða ekki í eigu sama fyrirtækis eins og stefndi í. Fyrir vikið má telja nokkuð víst að ekkert verður af sameiningu Arnarlax og Arctic Fish, en íslensk samkeppnisyfirvöld hafa haft hana til athugunar.

Frá þessu var greint fyrr í dag á norskum vefmiðlum.

SalMar hefur keypt meirihluta hlutafjár í norska fyrirtækinu NRS sem aftur á stóran hlut í Arctic Fish. Þau kaup ganga eftir og hafa fengið staðfestingu norskra samkeppnisyfirvalda. Samkvæmt vefmiðlinum ilaks.no skuldbatt SalMar sig til þess að selja hlut sinn í Arctic Fish við sameininguna við NRS í því skyni að fá samþykki samkeppnisyfirvalda í ESB.

Áform norskra stjórnvalda um 40% auðlindaskatt í laxeldinu munu hafa haft áhrif svo og að íslensk samkeppnisyfirvöld tóku fyrirhugaða sameiningu Arnarlax og Arctic Fish til skoðunar.

DEILA