Loksins Act alone á Suðureyri

Björn Thoroddsen.

Engin veit hva átt hefur fyrr en höft hindra árlega gleði á borð við Actið segir í fréttatilkynningu frá Act alone. Upphafsmaður listahátíðarinnar og aðalhvatamaður er Vestfirðingurinn Elfar Logi Hannesson.

Það skapast eitthvað tómarúm og tilveran verður örlítið einsleitari. Í tvö ár hefur ekki verið neitt Act en nú loksins er haldið Act á ný á Suðureyri. Act alone á Suðureyri fer fram dagana 4. – 6. ágúst og er dagskráin einstaklega vegleg og um leið alþjóðleg. Eitthvað í boði fyrir alla en alveg eins og í gamla daga þá er ókeypis á Actið eins og verið hefur frá upphafi. Boðið verður upp á einstakar leiksýningar, tónleika, götulist, myndlist, ritlist, uppistand og dans. Að vanda er talan einn í aðalhlutverki á Actinu því aðeins verður boðið uppá viðburði með einum listamanni hverju sinni.

Actið í ár er 4. – 6. ágúst

Einsog í gamla daga þá hefst Actið með veglegri fiskiveislu enda mikilvægt að næra magann áður en andinn er fóðraður með einstakri list. Að þessu sinni er alþjóðlegur blær yfir dagskrá ársins því boðið verður upp á viðburði frá Bandaríkjunum, Danmörku, Ítalíu og Paragúkvæ auk vitanlega fjölda innlendra viðburða. Frá Bandaríkjunum fáum við einleikina, Let It be Art með Ronald Rand sem fjallar um leikhúslistamanninn Harold Clurman og Pink Hulk með Valerie David sem er sjálfsævisöguleikur þar sem leikkonan segir á áhrifaríkan hátt fyrir glímu sinni við krabbamein. Frá Parakuæ koma tvær brúðulistakonur Carola Mazzotti og Tess Rivarola. Þær hafa hlotið alþjóðlega vikurkenningu fyrir list sína og verða bæði með brúðusleikýningar sem og brúðunámskeið fyrir börn. Danssýning ársins er Okkur hefur langað til að brotna í sundur með hinni dönsku Mathilde Mensink. Frá Ítalíu kemur svo trúðurinn Marco Borghetti.

Að vanda stígur fjöldi íslenskra listamanna á stokk á Actinu. Björn Thoroddsen slær fyrstu tóna ársins með einstökum konsert á opnunarkveldinu. Kveldið eftir stígur kollegi hans Herbert Guðmundsson á stokk. Daginn eftir, á laugardag, verða fjölskyldutónleikar með Dr. Gunna og um kveldið eru tónleikar með Kela. Af leiksýningum má nefna, Það sem er með Maríu Ellingsen og Síldarstúlkur með Halldóru Guðjónsdóttur. Þrír einleikir verða á fjölunum með leikaranemum úr Listaháskóla Íslands. Margt fleira mætti nefna m.a. verður  Arnar Jónsson á eintali og Hrafnhildur Hagalín er skáld ársins.

Loks má geta þess að það verður einnig hægt að fara ókeypis á Actið, því langferðabifreið Actins gengur daglega millum Ísafjarðar og einleikjaþorpsins Suðureyri.

Hér má finna dagskrá ársins og áætlun langferðarbifreiðar Actsins www.actalone.net

Síldarstúlkur.

DEILA